Uppeldi og menntun - 01.01.2002, Qupperneq 58
MARKVISST LEIKSKOLASTARF I FJOLMENNINGARLEGU SAMFELAGI
ið í heild um leið og hann eflir þroska og sjálfstraust einstaklingsins. En vissulega eru
aðstæður, saga og menning erlendu barnanna margvíslegar og mikilvægt er að taka
tillit til þarfa einstakra barna (Elsa Sigríður Jónsdóttir, 2000). Erlendu börnin geta
þurft sérstakan stuðning í upphafi dvalar og oft er um að ræða tímabundinn stuðn-
ing á meðan þau laga sig að nýjum siðum og venjum og ná tökum á nýju tungumáli.
Á sama tíma er mikilvægt að íslensku börnin lagi sig að þeim erlendu og læri um
þeirra siði og venjur. Allt leikskólastarfið þarf að miðast að því að öllum börnunum
líði sem best og að þau njóti sín sem einstaklingar. Hugmyndir um slíkt skólastarf eru
vel þekktar í menntunarfræðunum og má nefna Montessori sem lagði m.a. áherslu á
að öll börn fengju verkefni við sitt hæfi (Lillard, 1996), fjölgreindakenningu Gardners
(Gardner, 1993; Armstrong, 2001; Fogarty, 1995; Nicholson-Nelson, 1998), umfjöllun
Golemans um tilfinningagreind og tengsl hennar við lífsleikni einstaklingsins
(Goleman, 1996; McCown, Freedman, Jensen og Rideout, 1998), hugmyndafræði fjöl-
menningarlegrar kennslu (Guðrún Pétursdóttir, 1999; Hernández, 2001; Bennett,
1999; Edwards, 1998; Tiedt og Tiedt, 2002) og hugmyndafræði íslensku mennta-
samtakanna um hnattræna menntun (íslensku menntasamtökin, 2002) sem dæmi um
útfærslur á skólastarfi þar sem þarfir einstaklinganna eru í fyrirrúmi, hver einstak-
Iingur er virtur sem slíkur og fær að njóta sín og allir fá hlutverk við sitt hæfi.
RANNSÓKN Á FÉLAGSLEGU UMHVERFI, MÓHÖKU OG AÐLÖGUN
BARNA AF ERLENDUM UPPRUNA í ÍSLENSKUM LEIKSKÓLUM
Til að fá yfirsýn yfir starf sem unnið hefur verið í leikskólum víða um Iand undanfar-
in ár og til að draga lærdóm af reynslu þess fólks sem starfað hefur með erlendum
börnum í leikskólum var gerð rannsókn árin 2000-2002. Tilgangur rannsóknarinnar
var m.a. sá að fá mynd af stöðu mála í leikskólum, hvað hefur gefist vel og hvað ekki,
í hverju erfiðleikar felast og ekki síst hvernig hlutur sveitarfélaga og atvinnurekenda
hefur haft áhrif á starfið. Til að afla upplýsinga voru sendir spurningalistar í leikskóla
víða um land. Þeim var síðan fylgt eftir með viðtölum við nokkra leikskólastjóra,
einkum þar sem upplýsingar voru óljósar í svörum viðkomandi, en einnig óskuðu
nokkrir leikskólastjórar eftir viðtali, þar sem þeir töldu sig geta betur skýrt mál sitt á
þann veg. Hér á eftir verður fjallað um markmið, aðferðir og meginniðurstöður þess-
arar rannsóknar.
Markmið rannsóknar
Markmið rannsóknarinnar var einkum tvíþætt:
- Að skoða reynslu íslenskra leikskóla af vinnu með börnum af erlendum upp-
runa með það að leiðarljósi að stuðla að markvissari vinnu í þeim efnum.
- Að skoða hvernig leikskólastarf, menning í leikskólum og félagslegt og menn-
ingarlegt umhverfi leikskóla hefur áhrif á móttöku og aðlögun barnanna.
Einnig hvernig stefna stjórnvalda, sveitarfélaga og þátttaka alþjóðastofnana
koma þar við sögu.
56