Uppeldi og menntun - 01.01.2002, Síða 84
FÁTT E R REYNSLUNNI FRÓÐARA
fyrir háskólanám. Þessi staða vekur upp spurningar um gengi þeirra nema sem ekki
eru með stúdentspróf. Við mat á þroska og þekkingu nemenda sem ekki hafa lokið
stúdentsprófi hafa m.a. aldur og starfsreynsla verið lögð til grundvallar. Ekki er vit-
að hvort þessir þættir tryggi jafngildan undirbúning eða nýtist nemendum og hafi á-
hrif á gengi þeirra í náminu.
Tilgangur þessarar rannsóknar er að kanna námsgengi nemenda í leikskólakenn-
aranámi eftir fyrri menntun, aldri og starfsreynslu í leikskóla og prófa forspárgildi
þessara þátta sem notaðir eru til að velja inn nemendur. Hérlendis hefur lítið verið
kannað hvernig eldri nemendur með óhefðbundinn undirbúning í farteskinu standa
sig í háskólanámi. Fyrir rúmum áratug var gerð könnun á námsgengi nemenda við
Háskóla íslands (Friðrik H. Jónsson, 1989). Þar kom í ljós að því eldra sem stúdents-
próf nemenda var því meiri líkur voru á að þeir hyrfu frá námi. Á hinn bóginn hefur
engin íslensk rannsókn verið gerð á námsgengi nemenda sem teknir hafa verið inn í
háskólanám á öðrum forsendum en stúdentsprófi. Rannsókn af þessu tagi hefur hag-
nýtt gildi fyrir stjórnun og stefnumótun á þessu sviði. Flutningur leikskólakennara-
náms á háskólastig hefur skapað aðstæður sem veita tækifæri til að varpa frekara ljósi
á námsgengi háskólanema á ýmsum aldri með ólíkan bakgrunn og undirbúning.
Námsgengi eldri og yngri háskólanema
Erlendis hefur umræðan um nemendur með óhefðbundinn undirbúning einkum
snúist um eldri nemendur (non-traditional students). Þegar talað er um eldri nem-
endur er oftast átt við nemendur sem eru 25 ára og eldri þegar þeir hefja háskólanám.
Víða um heim hefur þróunin orðið sú að eldri nemendum hefur fjölgað í háskóla-
námi (Bishop-Clark og Lynch, 1992; Kasworm, 1990). Árið 1996 voru um 45% há-
skólanema í Bandaríkjunum 25 ára eða eldri er þeir hófu nám og fer þeim fjölgandi
(Eifler og Potthoff, 1998; Graham og Donaldson, 1999). Hérlendis er þetta hlutfall
hærra því um 56% háskólanema voru 25 ára og eldri árið 1998. í uppeldisgreinum var
þetta hlutfall enn hærra eða um 61% (Hagstofa íslands, 2000). Auk hærri aldurs eru
aðrir þættir sem þessir nemendur eiga sameiginlega og skera sig frá yngri nemend-
um. Hærri aldur felur til að mynda í sér víðtækari lífsreynslu og félagslegur bak-
grunnur þessara nemenda er einnig annar en yngri nemenda. Þeir hafa meiri skuld-
bindingar í einkalífi, eru margir í vinnu með náminu, eru fjárhagslega sjálfstæðir og
einnig er algengara að þessir nemendur séu ekki í fullu námi (Eifler og Potthoff,
1998).
Rannsóknir benda til þess að eldri nemendur í háskólanámi séu oft kvíðnir í upp-
hafi vegna frammistöðu sinnar í náminu. Eldri nemendur eru líka óöruggir og skort-
ir sjálfstraust hvað varðar ýmsar nýjungar eins og tölvur og tækni (Bishop-Clark og
Lynch, 1992). Þeir hafa ekki verið í skóla í nokkurn tíma og eru oft óöruggir með
námslega stöðu sína. Þeir finna líka oft fyrir streitu og álagi vegna væntinga í vinnu
og fjölskyldulífi (Martin og Johnson, 1999; Graham og Donaldson, 1996). Þrátt fyrir
að það sé langt síðan eldri nemendur voru í skóla, þeir eigi í ákveðinni baráttu milii
heimilis og náms og séu uppteknir við ýmsar skyldur, hafa rannsóknir leitt í ljós að
þeir standa sig ekki síður í háskólanámi en yngri nemendur. Graham og Long Gisi
82