Uppeldi og menntun - 01.01.2002, Blaðsíða 107
KRISTÍN AÐALSTEINSDOTTIR
geri sér grein fyrir því með hvaða móti þeir læri, auki líkurnar á því að marktækt nám
eigi sér stað. Af þessu má ljóst vera að innsæi kennara er mikilvægur eiginleiki, sem
þeir geta þroskað með sér enda segja Thompson og Rudolph (1992) að þjálfun í
mannlegum samskiptum hafi afdráttarlaus áhrif á viðhorf kennara og hæfni þeirra til
að bæta staðblæinn í kennslustofunni. Kennurum ber að átta sig á möguleikum nem-
enda, skilja hvernig þeir læra og stuðla að þroska þeirra. Woods (1983) heldur því
fram að vitneskja um gerðir kennara þurfi að byggjast á athugunum á skilningi þeirra
á eigin viðhorfum og umhverfi.
RANNSÓKN
Rannsókn sú er hér verður greint frá var gerð í fámennum og stórum skólum á ís-
landi svo bera mætti saman þessar skólagerðir. Beitt var þremur aðferðum við gagna-
öflun, þ.e. spurningalistakönnun, athugunum í bekk og viðtölum. Markmiðið með
spurningalistakönnuninni var að leita upplýsinga um:
a) stöðu og einkenni fámennra skóla,
b) hvernig komið er til móts við einstaklingsþarfir nemenda,
c) hvernig samskiptum kennara og nemenda er háttað,
d) samvinnu kennara,
e) hvernig kennarar nýta þekkingu foreldra um börn sín,
f) kennsluaðferðir í aldursblönduðum bekkjum,
g) skipulag skólanámskrár og framkvæmd hennar.
Markmið með athugunum í bekk var tvíþætt, þ.e. að afla upplýsinga um: a) látbragð
kennara og notkun raddarinnar, b) um almennt viðmót kennara.
Markmið með viðtölum við kennara var að leita upplýsinga um:
a) skilning kennara á þörfum nemenda,
b) skilning kennara á eigin viðmóti, bæði með og án orða,
c) skilning kennara á samskiptum sínum við nemendur,
d) samskipti kennara við foreldra og samkennara,
e) skilning kennara á eigin kennsluháttum.
Framkvæmd
Rannsóknin fór fram á árunum 1995 og 1997. Spurningalisti var sendur til allra fá-
mennra skóla á Norðurlandi eystra sem voru 17 talsins þegar rannsóknin fór fram í
janúar 1995. Alls fengu 93 einstaklingar (skólastjórar / kennarar / leiðbeinendur)
sem voru í 50% stöðu eða meira spurningalistann í hendur.
Athuganir í bekk og viðtöl voru tekin á tímabilinu febrúar til maí 1997 í 10 fámenn-
um skólum og 10 stórum skólum á sama landsvæði. Bréf hafði verið sent til skóla-
stjóra þar sem óskað var eftir því að kennarar gæfu sig fram til þátttöku í rannsókn-
inni. í öllum skólunum voru kennarar sem fúsir voru til þátttöku. Athuganirnar í
bekk voru tvíþættar. Annars vegar fór fram bein athugun í bekk (structured
105