Uppeldi og menntun - 01.01.2002, Side 176
KENNARAR OG KULNUN
Könnun á því hvort kulnunar í starfi gæti hjá grunnskólakennurum getur gefið
mikilsverðar vísbendingar um hvernig skólastjórnendur, rekstraraðilar skóla, ráðu-
neyti menntamála, kennaraháskólar og samtök kennara geta brugðist við, einnig
hvað einstaklingarnir sjálfir geta gert og ekki síst hvað hægt sé að gera innan skól-
anna. Þannig er hugsanlegt að fækka megi áhættuþáttum á vinnustöðum sem taldir
eru leiða til kulnunar. Þá er líklegt að færri einstaklingar þurfi að takast á við streitu
og hugsanlega kulnun í framhaldi af henni. Af þeim ástæðum sem upp hafa verið
taldar, er kulnun áhugavert og réttmætt rannsóknarefni. Með þennan bakgrunn í
huga voru skoðaðir nokkrir þættir sem tengjast líðan grunnskólakennara og leiðbein-
enda á vinnustað út frá fyrirbærinu kulnun.
I
ÁHRIFAÞÆTTIR í STARFSUMHVERFINU
Þættir í starfsumhverfninu, svokallaðir stofnanaþættir, sem taldir eru hafa mikil áhrif
á kulnun eru meðal annars vinnuálag, hlutverkaárekstrar, óskýr hlutverk, samskipti
við samstarfsfólk, stuðningsleysi, bæði félagslega og faglega, staðblær eða stofnana-
menning, frelsi til ákvarðana um skipulag eigin starfs (aðferðafrelsi), upplýsinga-
flæði, möguleikar til þátttöku í ákvörðunum, ómarkvisst umbunarkerfi, skortur á
endurgjöf og hrósi ásamt aðstæðum og aðbúnaði á vinnustað (Macdonald 1999, Chen
og Millier 1997, Farber 1991). Ekki er þar með sagt að þeir þættir sem nefndir hafa
verið og valdið geta álagi í starfi og starfsóánægju leiði endilega til kulnunar. Ef hins
vegar neikvæðar upplifanir og reynsla verða viðvarandi og gera það að verkum að
kennaranum finnst hann ekki standa sig, er hætta á að það geti leitt til kulnunar
(Gold og Roth 1993).
Hér á eftir verður fjallað nánar um þá stofnanaþætti sem valdir voru til að skoða
sérstaklega í rannsókninni. Þessir áhrifaþættir í starfsumhverfinu eru stuðningur og
samskipti, hlutverkaárekstrar, óskýr hlutverk og vinnuálag og leggja þeir allir sitt af
mörkum til að skapa þann staðblæ eða anda sem ríkir á hverjum vinnustað.
Stuðningur og samskipti ó vinnustað
Æ fleiri rannsóknir hafa sýnt fram á að slæm samskipti og stuðningsleysi í starfi eru
ein meginuppspretta streitu og kulnunar og jafnvel sú mesta. Á vinnustöðum er mis-
munandi hvernig starfsfólki semur. Það sem hefur áhrif þar á er meðal annars stjórn-
skipulag, staðblær, siðir og venjur. I öllu samstarfi er mikilvægt að fólk sé tilbúið til
þess að aðstoða og styðja hvert annað. Hugtakið félagslegur stuðningur lýsir þessum
samskiptum. Félagslegur stuðningur felst í þeim boðum sem einstaklingi berast frá
öðrum um að þeim líki við hann, virði og meti að verðleikum og aðstoði fremur en
að segja honum hvað hann eigi að gera (Gold og Roth 1993, Winnubst 1993, Leiter og
Maslach 1988, Jackson o.fl. 1986).
Stuðningsaðilar á vinnustað eru fyrst og fremst yfirmenn og samstarfsmenn. í ljós
hefur komið að stuðningur yfirmanna skiptir miklu máli og oft mestu. Stuðningur
samstarfsmanns getur til dæmis verið í formi vináttu en stuðningur yfirmanns getur
falið í sér til dæmis hrós, leiðbeiningar og framgang í starfi (Huebner 1993, Leiter og
Maslach 1988, Jackson o.fl. 1986).
174