Uppeldi og menntun - 01.01.2002, Page 194
HLUTVERK SKÓLASTJÓRA OG MAT ÞEIRRA
endurmenntun starfsmanna í samræmi við áherslur skólanámskrár. Hér er einnig um
talsverða breytingu að ræða fyrir starfsmenn sem til þessa hafa að mestu ráðið því
sjálfir hvaða námskeið þeir hafa sótt. Skólastjóri þarf því að leita jafnvægis milli þarfa
stofnunar og óska starfsmanna um endurmenntun.
Flestir skólastjórar hafa umtalsverða reynslu af samstarfi við foreldra. Lögin setja
þessu samstarfi formlegri umgjörð en áður var og segja að nokkru til um umfang
þess og áherslur. Skólastjóri ber nú ábyrgð á að stofnað sé þriggja manna foreldraráð
sem veitir umsögn um helstu áætlanir skólans, svo sem skólanámskrá og fjárhagsá-
ætlanir. Skólastjórum er einnig skylt að miðla upplýsingum um skólastarfið til for-
eldraráðs og mæta óskum þeirra um upplýsingar.
Umfangsmesta breytingin við yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaga er sú aukna
fjárhagslega ábyrgð á starfi skólans sem mörgum skólastjórum er nú falin. Það er
jafnframt sú breyting sem kallað hefur á mesta sérþekkingu. Þess ber þó að geta að
hvert sveitarfélag fyrir sig ákveður hvernig það hagar fjármálastjórnun skólanna og
því mismunandi hversu mikla fjárhagslega ábyrgð skólastjórar bera.
Aðrar breytingar sem yfirfærslan hefur kallað á eru vegna aukinnar nálægðar
skóla við skólayfirvöld. Má ætla að nálægðin hafi aukið skilning og þá um leið stuðn-
ing, jafnt foreldra sem yfirvalda, við störf skólastjóra. Þar sem sh'kt hefur gerst má bú-
ast við að náðst hafi samstarf um ýmis af þeim verkefnum sem lögin kveða á um, s.s.
sjálfsmat skólanna, skólanámskrárgerð, þróunarverkefni og uppbyggingu á sviði
tölvumála. Á hinn bóginn kann að vera að nálægðin geri skólastjóra berskjaldaðri
fyrir gagnrýni þar sem foreldrar eiga greiðan aðgang að yfirvöldum skólamála,
skólanefnd og sveitarstjórn. Ekkert er þó hægt að fullyrða um þetta og misjöfnu fyrir-
komulagi eftir sveitarfélögum. Þótt Jöfnunarsjóður sveitarfélaga jafni mjög fjárhags-
lega aðstöðu milli landsvæða má ætla að misvel sé búið að skólum landsins, faglega
sem rekstrarlega. Geta mismunandi viðhorf til menntunar ráðið miklu þar um ekki
síður en fjárhagslegt bolmagn.
Vert er að hafa hugfast að þótt íslenskir grunnskólar virðist hafa meira sjálfræði en
áður þá hefur formlegt reglubundið eftirlit með skólum af hálfu yfirvalda jafnframt
aukist verulega og hugsanlega einnig aðhald foreldra og sveitarstjórnarmanna. Því
kunna að vera áhöld um hvort frelsið sé jafn mikið og ætla má í fljótu bragði. Það er
því áhugavert að kanna viðhorf skólastjóra til breytinga á skólastarfinu í kjölfar til-
færslunnar og spyrja hvort yfirfærslan hafi bætt ytra umhverfi grunnskólans, aukið
sjálfstæði hans og eflt innra starf. Jafnframt er áhugavert að kanna hvaða áhrif breyt-
ingarnar hafa haft á hlutverk skólastjóranna. í rannsókn þeirri sem hér er lýst freista
höfundar þess að svara þessum spurningum.
Rétt er að vekja athygli á því að meistaraprófsritgerð Hilmars Hilmarssonar (2001)
hefur ýmsa snertifleti við þá rannsókn sem hér er lögð til grundvallar. Ritgerð Hilm-
ars nefnist Völd skólanefnda. Athugun á starfssviði og áhrifavaldi skólanefnda í kjölfar yfir-
töku sveitarfe'laga á rekstri grunnskóla. í ritgerðinni er fjallað um aðdragandann að yfir-
færslu grunnskóla til sveitarfélaga og stöðu skólanefnda eftir yfirfærsluna 1. ágúst
1996. Hilmar lagði m.a. spurningalistakönnun fyrir skólastjóra í fimm fjölmennum
sveitarfélögum og leitaði eftir viðhorfum þeirra til áhrifa yfirfærslunnar á skólastarf.
192