Uppeldi og menntun - 01.01.2002, Page 230
VIÐHORF OG BJARGARHÆTTIR FULLORÐINNA LESHAMLAÐRA ÍSLENDINGA
erfiðleikum, er talið að um leshömlun eða dyslexíu sé að ræða.22 Leshömlun hefur
verið þekkt í meira en hundrað ár, en ekki er vitað nákvæmlega um uppruna
(etiology) hennar eða orsök.23 Af þessum sökum hefur fræðimönnum ekki tekist að
komast að samkomulagi um hvernig eigi að skilgreina hana. í klínískri vinnu, bæði
hér á landi og víðar, nota læknar og taugasálfræðingar oftast s.k. misræmiskenningu,
en hún gengur út frá því að lestrarfærni viðkomandi einstaklings sé mun lakari en
vænta mætti út frá greindarvísitölu hans, skólagöngu og félagslegum aðstæðum.
Bæði Alþjóðleg tölfræðiflokkun sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála, ICD-10
(The ICD-10 Classification ofMental and Behavioral Disorders. Diagnostic criteria for rese-
arch, 1993; íslensk útgáfa 1996) og greiningarkerfi ameríska geðlæknafélagsins
(Diagnostic and Statistical Manual ofMental Disorders, DSM-IV, 1994) byggjast á þessu
misræmi. Andstæðingar misræmiskenningarinnar (m.a. Stanovich, 1996) hafa bent á
að slíkt misræmi hafi enga þýðingu fyrir kennslu eða nám leshamlaðra, vandi allra
þeirra barna sem eiga við lestrarerfiðleika að stríða sé mjög svipaður, burtséð frá
greindarvísitölu. Lundberg (1999) telur einnig að skilgreiningar sem taka mið af
greindarvísitölu geti jafnvel leitt til þess að sum skólabörn fái ekki nauðsynlega þjón-
ustu, þar sem þau greinast ekki leshömluð sökum lágrar greindar. Til að ráða fram úr
þessu sömdu Hoien og Lundberg (1991, 2000; Lundberg, 1999) sína eigin „innihalds-
skilgreiningu"24, en samkvæmt henni er einstaklingurinn talinn leshamlaður, ef hann
á við lestrar- og/eða ritunarerfiðleika að stríða, hefur átt það frá upphafi skólagöngu,
er með eðlilega greind (ekki þroskaheftur) og er ekki með neina aðra klíníska sjúk-
dómsgreiningu sem geti skýrt þessa erfiðleika hans. Skilgreining Hoien og Lundberg
(1991) var notuð sem viðmið í þessari rannsókn.
Leshömlun sem félagslegt fyrirbrigði
Leshömlun getur verið misalvarleg og auknar líkur eru á margvíslegum fylgikvill-
um, svo sem einkennum ofvirkni og athyglisbrests, atferlis- og aðlögunarerfiðleik-
um, frávikum í hreyfi- og málþroska, kvíða og depurð (Jónas G. Halldórsson, 2000).
Rannsóknir sýna fram á að veruleg tengsl eru á milli lestrarörðugleika á barnaskóla-
aldri og erfiðleika í félagslegri aðlögun og afbrotaferils á unglingsárum og í sumum
22 Dyslexía er fengið úr grísku og táknar erfiðleika með orð eða „orð í rugli" (sbr. gr. ðuo og koyC
rökréttara hefði því verið að nota orðið torlæsi á íslensku, en það heiti hefur ekki fengið brautar-
gengi). Onnur íslensk heiti fyrir dyslexíu eru se'rtæk lesröskun, sem er aðallega notað af læknum og
taugasálfræðingum, og sértækir lestrarerfiðleikar, sem er eldra í málinu og er víða notað meðal
kennara. Sértæk lesröskun er þýðing á enska heitinu speciftc reading disordcr og er það heiti notað
í hinni íslensku útgáfu Alþjóðlegrar tölfræðiflokkunar sjúkdóma, ICD-10 (1996). Hér er orðið les-
hömlun notað einfaldlega vegna þess að margir þekktir sérkennslufræðingar hafa farið að nota það
og það heiti virðist vera að vinna á. f daglegu tali heldur heitið lcsblinda samt velli.
23 Mjög góða samantekt á nýjustu rannsóknarniðurstöðum er snerta hugsanlegan líffræðilegan
grunn leshömlunar er að finna hjá Hoien og Lundberg (2000).
24 Orðið er tekið úr skýrslu um sértæka lesröskun sem samin var að beiðni menntamálaráðuneytis-
ins (Gretar L. Marinósson, Fjölnir Ásbjörnsson, Jónas G. Halldórsson og Þóra Kristinsdóttir, 1997).
Nafngiftin vísar til þess að hér sé byggt á greinanlegum einkennum sem eru til staðar í birtingar-
formi hömlunarinnar, en misræmiskenningin byggir aftur á móti á útilokunaraðferð.
228