Uppeldi og menntun - 01.01.2002, Síða 238
VIÐHORF O G BJARGARHÆTTIR FULLORÐINNA LESHAMLAÐRA ÍSLENDINGA
auðu. Flestum var menntunin hugleikin. Nær helmingur eða 29 tók það fram að
menntun þeirra hefði orðið öðruvísi, ef þeir hefðu ekki átt við leshömlun að glíma.
Ýmist töldu þeir að þeir hefðu menntað sig betur, farið í langskólanám eða eitthvert
starfsnám. Tveir nefndu að þeir hefðu farið í framhaldsnám fyrr, en eftir skyldunám
tóku þeir nær tíu ára hlé áður en þeir voru búnir að safna nægilegum kjarki til að
hefja framhaldsnám. Má hér e.t.v. skynja áhrif frá breyttum tímum og meiri fræðslu
varðandi dyslexíu. Ekki voru samt allir á þeirri skoðun að tímarnir hafi í raun og veru
breyst, þrátt fyrir opnari umræðu:
... þó að það sé sagt oft á tíðum að það sé boðið upp á aðstoð, þá stendur of
lítið á bak við það.
(karl, 21-25 ára)
Tveir þátttakenda sögðust aldrei hafa lokið grunnskólanámi, en hefðu gert það ef
skilningur hefði verið fyrir hendi og aðstoð til staðar. Þeir töldu báðir að hugsanlega
hefðu þeir jafnvel farið í eitthvert framhaldsnám, en nú væru þeir algjörlega
„ómenntaðir".
Ég hætti í skóla og náði ekki samræmdu prófunum, gafst upp á mínu námi í
níunda bekk.
(karl, 21-25 ára)
Lítil skólaganga hafði þrengt starfsvalið:
Ég hefði... jafnvel farið íframhaldsnám og þá væri e'g ekki háseti á sjó.
(karl, 31-35 ára)
... mér hefði ekki liðið eins illa að sækja um krefjandi vinnu.
(kona, 26-30 ára)
Þó að menn gætu séð fyrir sér hvernig lífið hefði getað orðið án leshömlunar, virtust
samt mjög margir vera sáttir við stöðu sína nú, þrátt fyrir allt. Fimm þátttakendur
tjáðu sig sérstaklega um þetta mál í opnum spurningum:
... þá hefði ég ekki heldur ferðast eins og ég er búin að gera.[...]Ég er sátt við
mitt hlutskipti í dag - svo var ekki áður.
(kona, 21-25 ára)
Þó að ég sé sáttur við að vera bóndi ídag, þá hefði ég örugglega valið eitthvað
annað ... efe'g ætti ekki við leshömlun að etja.
(karl á þrítugsaldri)
Nær helmingur sagðist vera sáttur við starf sitt, en þriðjungur ekki, 11 einstaklingar
voru hlutlausir. Ekki virtist vera munur á milli svara hvað menntun eða starfsgrein
varðar, en ungir karlar voru mun líklegri til að vera óánægðir með vinnu sína en þeir
sem eldri eru. Meirihluti þátttakenda virtist vera vongóður um starfsframa og töldu
236