Uppeldi og menntun - 01.01.2002, Page 277
BERGLIND RÓS MAGNÚSDÓTTIR
LOKAORÐ
Niðurstaðan er sú að vísindalegar skýringar á svokölluðum „náttúrulegum stað-
reyndum" eins og frjóvgun eru menningarlega gildishlaðnar. Þá ályktun má draga af
ýmsum ástæðum. í fyrsta lagi má greina staðalmyndir í sjálfum vísindatextunum
sem eru fyrirmynd kennslubókarhöfunda. í öðru lagi kemur í ljós að sjónarhorn bók-
arhöfunda er misjafnt og af því leiðir að ólíkar hugmyndir og þekking komast til
skila. Oft og tíðum bera þessar hugmyndir með sér kynjaslagsíðu. Þegar fjallað er um
frjóvgunarferlið segja margir höfundar eingöngu frá hinni torsóttu leið sáðfrumunn-
ar án þess að geta nokkuð um þátt eggsins eða kynkerfis kvenna. Ef minnst er á slíkt
eru þá helst dregnir fram þættir sem framkalla einhvers konar hindranir fyrir
„hetjuna". Samruna kynfrumna er lýst með fjölbreyttum hætti. Aðeins einn höfund-
ur viðurkennir virkni eggfrumunnar án þess þó að geta þess hvernig hún lýsir sér,
flestir segja frá ofurmætti sáðfrumunnar sem borar sér í gegnum eggið og nokkrir
fjalla um sameiningu sáðfrumu og eggs. Hvergi er beinlínis sagt frá því í hverju
virkni eggsins er fólgin en sums staðar dregið úr aðdáuninni á afrekum sáðfrumunn-
ar þar sem nokkrir höfundar gera ekki tilraun til að halda uppi óskaddaðri hetjuí-
mynd sáðfrumunnar (Roberts, 1988; Hrólfur Kjartansson og Stefán H. Brynjólfsson,
1996; Holm, 1996; Parker, 1990). Sams konar breytingu mátti greina í skrifum vísinda-
manna eftir að ótvíræð virkni eggsins kom í ljós. Þeir greindu ekki strax frá virkni
eggsins en drógu þess í stað úr ýktum lýsingum á ofurkrafti sáðfrumunnar. Því má
segja að nýjustu uppgötvanir um frjóvgunarferlið komi hvergi fram í íslensku
kennsluefni.
Kynfrumurnar eru persónugerðar og heimilum þeirra er lýst í samræmi við það.
Á heimili karlfrumunnar er stöðug virkni. Þar eru ekki eitraðar gufur, súrt slím, fell-
ingar eða hörmungar, hrörnun og eyðing eins og í heimkynnum kvenfrumunnar. Ef
karlfruman vill reyna sig er kjörið að fara um þessar hættulegu slóðir og sýna fram á
hreysti og hetjulund. Það er ekki endalaust hægt að sitja heimóttarlegur í kóngsrík-
inu, það verður að sigla.
Þessi litla rannsókn mín var gerð til að varpa ljósi á það að fræðiskrif um kynfrum-
ur og kynfæri mannsins eru mótuð af menningartengdum hugmyndum um kynin.
Strax á 19. öld var enski heimspekingurinn John Stuart Mill búinn að átta sig á hversu
erfitt er að losa sig við þessar gömlu hugmyndir (1997:70-71);
Tilfinningar vorar til hinnar misjöfnu stöðu karla og kvenna [eru]... rót-
grónari en allar aðrar tilfinningar sem geyma og vernda venjur fortíð-
arinnar. Það er því eigi að furða þótt þær séu öflugastar af öllum og hafi
varist best gegn andlegum byltingum sem orðið hafa í mannfélaginu á
seinni tímum.
Erum við enn tjóðruð við hugmyndir Aristótelesar um konuna þrátt fyrir kollvarp-
andi upplýsingar og kynjagagnrýni? Hver eru mörkin milli raunveruleika og ævin-
týris, viðtekinna hugmynda og vísinda?
275