Iðunn : nýr flokkur - 01.01.1936, Síða 28
22
Þorgils gjallandi.
IÐUNN
vaxtarlag tilfinninganna. Auk hinna ágætu mannlýsinga,
sem þegar hafa verið ræddar, er hér að finna snjallar lýs-
ingar úr sveitalífinu, heimilislífið á Fossi, veizlur og sam-
komur unga fólksins með dansi og gleðskap, kirkjuferð-
ir og kaupstaðarferðir, þar sem karlarnir fá sér ótæpt í
staupinu — öllu þessu er prýðilega lýst. Náttúrulýsing-
ar hefir höfundurinn og fyllilega á valdi sínu og kann
þá list að nota sér náttúruna sem bakgrunn fyrir mann-
lýsingar sínar eða hljómbotn fyrir tilfinningar og skap-
brigði söguhetjanna. Loks skipa skepnurnar allmikið
rúm í sögunni; Geirmundur og Rauður og Vaskur eru
óaðskiljanlegir á kafla í sögunni; þar sem traust Geir-
mundar á mönnunum bilar, þar sækir hann félagsskap
þessara þöglu vina sinna.
Ef nefna skyldi það, sem Þorgils gjallanda brestur í
þessari sögu sinni, eins og raunar öðrum sögum sínum,
þá er það húmor. Honum er beizk alvara og stekkur
sjaldan eða aldrei bros. í sambandi við þann brest hans
er sá galli, að honum hættir stundum við að verða of
viðkvæmur þar, sem hann lætur söguhetjurnar rekja
harma sína eða játa ástir sínar. Þó kveður minna að
þessu en von væri til, eftir því sem í haginn var búið
fyrir Þorgils. Því hann er langt á undan samtíðarmönnum
sínum á því sviði að lýsa sterkum tilfinningum. Þeim
verður sjaldnast lýst utan frá, heldur aðeins með því að
stinga hendinni í eigin barm og lýsa sjálfum sér, eða með
því að setja sig fullkomlega f spor söguhetjanna, sjá alt
með þeirra augum, leggja þeirra mat á hlutina. Þetta er
þveröfugt við aðferð húmoristanna: Þeir leggja sinn
eigin mælikvarða á aðra menn eða meta viðburðina
einhverju viðteknu mati, en brosa svo í kamp eða glotta
hæðnislega við tönn að nybbum þeim og skæklum, sem
ekki vilja laga sig eftir matinu.