Iðunn : nýr flokkur - 01.01.1936, Síða 44
38
Forboðnu eplin.
IÐUNN
— „Þeir vilja segja, að stýrimaðurinn sigli henni
drjúgum“.
„E-hum, alt mannheilt og engar slysfarir?“
— „Og hann hefir áreiðanlega sæmilegan farkost,
maðurinn sá; því varla hugsa ég, að margar jullur fari
betur í sjó“.
Augu hjónanna mættust í angurværri spurn, sem
hamingjan ein eða framtíðin gátu svarað.
En með því að komið var nú rétt að matmálstíma,
dró frú Arngerður sig fram í eldhúsið og lét tengda-
feðgana eftir eina. Hún fann að eitthvað það lá í Ioft-
inu, sem erfitt mundi að sætta eða samþýða, en það
var ekki hennar sök, og bezt var, að þeir fengju nú að
eigast við eða þreifast fyrir.
En þeir voru furðu fámæltir í fyrstu. Oftast er hvað
mest komið undir áhrifum fyrstu samverustunda, og
báðir fundu þessir menn til einkennilegs vanmáttar, þeg-
ar út f samræðurnar kom, og þó einkum presturinn;
honum fanst sem hann hefði sogast inn í straumsveip
óviðráðanlegra andstæðna. — Þeir spurðust almæltra
tíðinda, en viðræður þeirra vildu hlaupa mjög í snurð-
ur og bláþræði, sökum þess að þeim var varnað sam-
stillingar. Séra Hannes fann ósjálfrátt, að jafnvel minsta
vængkvik kringum háleit hugðarefni var vonlítið eða
tilgangslaust að sinni, því ,,efnið“ streittist á móti alt
hvað af tók. — Hins vegar duldist Þorbergi ekki fá-
kunnátta viðmælandans í öllu því, er að haldi mátti
koma í lífinu; hann hafði til dæmis auðheyrilega ekki
vit á sjósókn eða veiðibrögðum fremur en kötturinn á
sjöstjörnunni. Og þess vegna var gamli maðurinn ein-
mitt var um sig og léði engu rómantísku hugarvingli
fangstaðar á sér. — Jörð á meðan á jörð var lifað.
Himnarnir aftur ekki fyr en seinna.