Iðunn : nýr flokkur - 01.01.1936, Blaðsíða 68
62
Þýzku miðstéttirnar og þjóðernisstefnan. IÐUNN
krefjast ekki einungis sérhæfileika í vissa átt, heldur
einnig alhliða lífsreynslu og náinna kynna af högum
og óskum alþjóðar. Spánski rithöfundurinn Ortega y
Gasset talar í bók sinni, Uppreist múgsins, um „villi-
mensku sérfræðinnar“ og lýsir því fyrirbrigði all-ítar-
lega. Ef til vill hefir það hvergi sýnt sig í jafn-átakan-
legri mynd eins og í Þýzkalandi. Þrátt fyrir mikla ment-
un og ýmsa ágæta kosti, voru miðstéttirnar þýzku áber-
andi vanþroska og þekkingarsnauðar um pólitísk efni
og áttaviltar í félagsmálum. Þetta gerði þær að vilja-
lausum þjónum aðalsvalds og auðvalds, á meðan hags-
muna-andstæðurnar duldust undir yfirborði samfélags-
ins og átökin milli stéttanna voru ekki hafin fyrir al-
vöru. Og þetta gerði þær líka að ráðviltum hænsnum,
þegar að því kom, að þær voru rifnar upp úr værðar-
mókinu og stóðu andspænis hruninu og hörmungunum,
sem valdið, er þær höfðu stutt, leiddi yfir þær. Og enn
mun verða sýnt, í því, sem fer hér á eftir, hvernig þess-
ar sömu stéttir urðu sá öldubrjótur, er allar tilraunir til
að gera Þýzkaland að lýðræðisríki, eftir 1918, brotn-
uðu á.
í ágústbyrjun 1914, þegar keisarinn frá hallarsvöl-
unum í Berlín dró sverð sitt og eggjaði til stríðs gegn
óvinunum, sem risið höfðu móti ákvörðunum hinnar
heilögu forsjónar og settust nú að Þýzkalandi öllum
megin, flæddi heit bylgja hrifningar og guðmóðs yfir
þetta drottinholla fólk. Æskumennirnir þustu til víg-
stöðvanna, með byssur sínar vafðar blómum. Feður
þeirra lögðu fram sparifé sitt, til þess að stríðslánin
mættu verða fullteiknuð. Enginn dró það í efa, að nú
stæði fyrir dyrum endurtekning atburðanna frá 1870.