Iðunn : nýr flokkur - 01.01.1936, Side 69
IÐUNN Þýzku miðstéttirnar og þjóðernisstefnan. 63
A afmælisdegi orustunnar við Sedan (2. sept.) myndu
hinir ósigrandi þýzku herir halda innreið sína í París.
Stríðslánin frá 1870 höfðu gefið fimm af hundraði í
vexti. Nú væri að vfsu ranglátt að ætla, að hagnaðar-
vonin ein hafi knúð borgarana til að leggja spariskild-
inga sína í ófriðarlánin 1914. En hvatirnar til hinna
miklu fórna voru alveg vafalaust undarlegt sambland
af kaldrænni fjárhyggju og rauðglóandi ættjarðarást,
bótt fórnendurnir ef til vill hafi ekki gert sér þess ljósa
grein.
Rás viðburðanna varð nokkuð á aðra lund en hinir
vígreifu borgarar höfðu reiknað út. Þjóðverjar börð-
ust að vísu af hinni mestu hreysti og héldu út árum
saman af ótrúlegri þrautseigju. Og fyrir hamslausan
áróður, er studdist við hina ströngustu ritskoðun, tókst
lengi vel að telja miklum hluta þjóðarinnar trú um, að
herirnir þýzku, sem þrátt fyrir alt stóðu langt inni í
löndum óvinanna, myndu að lokum hrósa sigri. En svo
kom hrunið, ósigurinn og uppgjöfin af hendi Þjóðverja
— ekki vegna neinnar rýtingsstungu í bakið, eins og
Hitler og fylgismenn hans hafa viljað vera láta, heldur
blátt áfram af því, að allir möguleikar voru tæmdir,
landið útsogið og þjóðin þrotin að kröftum, bæði efna-
lega og andlega. Og spariféð alt, sem runnið hafði í
stríðslánahítina, var að eilífu horfið.
í kjölfar friðarins sigldi svo gengishrunið og verð-
bólgan. Sumarið 1923 hrundi þýzka markið niður í ekki
neitt, og þær litlu leifar, sem eftir höfðu verið af spari-
skildingum miðstéttanna, gufuðu upp eins og dögg í
sólskini. Það er ekki auðvelt að gera sér í hugarlund
þá harmleiki, sem þá gerðust á þýzkum heimilum, ekki
sízt með hinum fátækari hluta miðstéttanna. Af innbúi
þessara heimila hvarf hver munurinn af öðrum til veð-