Tímarit lögfræðinga - 01.11.1996, Síða 43
umbjóðanda sínum til tjóns, þá beri honum að svara umbjóðanda fyrir það. Þá
sagði í tilskipun frá 19. júlí 1793, að málflutningsmanni, sem stefnt væri sem
vitni í einkamáli, væri óheimilt að skýra frá því sem skjólstæðingur hans, eða
sá, sem leitað hefði ráða hjá honum, hefði trúað honum fyrir. í III. kafla laga nr.
22/1919 um Hæstarétt, voru ákvæði „um málflutningsmenn fyrir hæstarjetti“,
en ekki var þar sérstaklega fjallað um efni umboðsins. Það var svo fyrst með 1.
nr. 85/1936 að ákvæði voru sett um umboð málflutningsumboðsmanns, sbr. 62.
gr. Akvæði þetta er efnislega samhljóða ákvæðum núgildandi 1. mgr. 4. gr
MFL, en þar kemur fram, að sæki héraðsdóms- eða hæstaréttarmálflutnings-
maður eða fulltrúi þeirra dómþing fyrir aðila, teljist hann hafa umboð til þess,
nema annað sé sannað. Um sönnunarreglu þessa segir í greinargerð með 62. gr.
1. nr. 85/1936, að með henni sé lögfest regla, sem fylgt hafi verið í Reykjavík,
að minnsta kosti um hæstaréttarmálflutningsmenn. Þá segir að yfirleitt virðist
mega trúa löggiltum málflutningsmönnum til að segja rétt til um það, að þeir
hafi umboð aðila til þess að fara með mál hans fyrir dómi.8 Um efni umboðsins
var ákvæði í 2. mgr. 62. gr. 1. nr. 85/1936, en þar segir, að í málflutningsumboði
felist, nema öðruvísi sé mælt, heimild til að framkvæma sérhvað það, sem
venjulegt er til flutnings máls fyrir dómi. í greinargerð með 2. mgr. 62. gr. segir
það eitt, að þar komi fram fyrirmæli, sem fræðimenn hafa talið að gilda yrðu
um málflytjendur í umboði annarra manna og heppileg verður að teljast.9 Regla
þessi var tekin óbreytt upp í 2. mgr. 4. gr. MFL.
Eins og fyrr var vikið að, byggðist íslensk réttarfarslöggjöf fyrir setningu 1.
nr. 85/1936, auk NL, að miklu leyti á einstaka sundurleitum dönskum
lagaákvæðum. A miðri 19. öld hófst í Danmörku viðamikil endurskoðun á
þarlendri réttafarslöggjöf.10 Þann 28. febrúar árið 1868 var skipuð sérstök
réttarfarsnefnd, undir forsæti danska fræðimannsins Nellemann, sem vinna átti
að gerð heildarfrumvarps til réttarfarslaga. Árið 1877 skilaði nefndin af sér
viðamiklu frumvarpi ásamt greinargerð, sem bar heitið „Udkast til lov om den
Borgerlige Retspleje“. I dönskum ritum um réttarfar er frumvarp þetta jafnan
nefnt „Kommissionsudkastet af 1877“*1 (frumvarpið verður hér eftir nefnt KU
1877). Frumvarp þetta var mikið að vöxtum alls 652 greinar ásamt ítarlegri
greinargerð. Svo virðist sem frumvarpið hafi af einhverjum ástæðum aldrei
verið lagt fram í frumgerð sinni, en þess er ekki getið í dönsku þingtíðindunum
frá þessum tíma. Hins vegar var frumvarp lagt fram árið 1899, sem bar sama
heiti, en nokkrar efnisbreytingar höfðu þá orðið frá KU 1877. Frumvörp þessi
voru undanfari að setningu þeirra réttarfarslaga sem nú gilda í Danmörku, nr.
90 frá 11. október 1916.
8 Alþingistíðindi 1935-1936 A, bls. 950.
9 Alþingistíðindi 1935-1936 A, bls. 950.
10 Gomard: Civilprocessen. bls. 27-28.
11 Til dæmis Gomard: Civilprocessen, bls. 244 og Pedersen: Indledning til sagfprergern-
ingen I., bls. 86.
193