Tímarit lögfræðinga - 01.11.1996, Blaðsíða 79
verður, að hún geti farið fram á hvern þann hátt, sem dómari telur fullnægjandi,
sbr. meginreglu 1. mgr. 44. gr. EML um frjálst sönnunarmat.
H 1952 301
Lögfræðingurinn J höfðaði mál fyrir hönd M gegn G til heimtu reiknings-
skuldar. G sótti þing við þingfestingu og krafðist frávísunar málsins, með því
að J hefði ekki málflutningsréttindi og hefði ekki umboð frá M til að fara með
málið. J taldi hins vegar felast umboð til sín í því, að hann hefði lagt fram í
málinu reikning undirritaðan af G, og væru lögfræðingar almennt ekki krafðir
um frekara umboð fyrir dómi. í úrskurði héraðsdómara segir, að hann hafi ex
officio endurupptekið málið og hafi lögmaðurinn Á lagt fram yfirlýsingu um,
að J flytti málið fyrir sína hönd og á sína ábyrgð. Með hliðsjón af þessu og 3.
og 4. gr., sbr. 20. gr., MFL, taldi héraðsdómari, að J hefði sannað nægjanlega
umboð sitt til að fara með málið og var frávísunarkröfunni hrundið. Var
úrskurður þessi staðfestur með dómi Hæstaréttar.
Rétt þykir að árétta hér, það sem áður er sagt, að 1. mgr. 4. gr. MFL gildir
aðeins um þingsókn og flutning máls fyrir dómi. Lögmaður, sem fengið hefur
vfðtækari heimildir en almennt málflutningsumboð samkvæmt 2. mgr. 4. gr.
MFL felur í sér, þarf því að sanna þetta víðtækara umboð sitt, ef það er dregið
í efa.105 Samkvæmt því þarf lögmaður, ef heimild hans er vefengd, til dæmis að
færa sönnur að því, að hann hafi umboð til að áfrýja máli, gefa eftir af kröfum
umbjóðanda síns eða veita greiðslufrest.
3.6 Brottfall málflutningsuniboðs
Umbjóðanda er almennt heimilt að afturkalla umboð, sem hann hefur veitt
lögmanni, ýmist til málflutnings eða annarra verka.106 Af tilliti til hagsmuna
gagnaðila verður þó að gera nokkum greinarmun á því, hvemig að afturköllun
er staðið, eftir því um hvers konar umboð er að ræða. Meginregla SML um
afturköllun umboðs er sú, að umbjóðandi skuli að jafnaði nota sömu eða
hliðstæða aðferð við afturköllunina og hann notaði við að gefa umboðið.107
Hafi lögmanni til dæmis verið veitt sérstakt umboð með tilkynningu, sem beint
var til tryggingafélags, til að koma fram gagnvart félaginu við uppgjör
skaðabótakröfu, yrði að tilkynna viðkomandi félagi sérstaklega um brottfall
umboðsins, sbr. 13. gr. SML. Varðandi stöðuumboð gildir hins vegar regla 15.
gr. sömu laga, en þar segir, að slíkt umboð skuli teljast afturkallað „er umboðs-
maðurinn lætur af starfanum". Þannig teldist málflutningsumboð samkvæmt 2.
mgr. 4. gr. MFL nægjanlega afturkallað með því, að umbjóðandi lýsi því yfir
við umboðsmann sinn. Sú spurning vaknar hér, hvort tilkynna þurfi viðkomandi
dómstól, þar sem mál er rekið, að umboðið hafi verið afturkallað. Væntanlega
105 Markús Sigurbjömsson: Einkamálaréttarfar, bls. 127.
106 Pedersen: Indledning til sagfðrergerningen I., bls. 93.
107 Páll Sigurðsson: Samningaréttur, bls. 203.
229