Tímarit lögfræðinga - 01.11.1996, Qupperneq 74
samþykkis skjólstæðings, ef fela þarf mál hans öðrum lögmanni. Ákveðna
takmörkun í þessu efni kann einnig að leiða af almennum reglum samn-
ingaréttar um „undirumboð“ eða „framumboð“.90 Lrklega er þó ástæða til að
gera nokkurn greinarmun á þeirri heimild lögmanns, sem leidd er af 3. mgr. 18.
gr., til að fela öðrum mál skjólstæðings, eftir því hvaða verkefni hinum síðari
lögmanni eru falin. Gera verður ráð fyrir því að leita þurfi samþykkis
skjólstæðings, ef meðferð málsins er að öllu verulegu leyti falin öðrum, þar
með talinn aðalflutningur þess. Ef verkefni þau, sem falin eru öðrum lögmanni,
eru hins vegar takmörkuð við tiltekið minni háttar verk, svo sem að mæta við
þingfestingu eða við tiltekið þinghald til þess að biðja um frest, væri honum
væntanlega heimilt, þrátt fyrir ákvæði siðareglana, að fela það öðrum, án þess
að bera það undir skjólstæðing sinn,91 enda virðist gengið út frá því í
framkvæmd, sbr. að nokkru H 1988 198. Þá má ætla að heimildir í þessum
efnum séu rýmri í þeim tilvikum, þegar mál er rekið utan starfssvæðis þess
lögmanns, sem hefur mál með höndum, enda horfir það til sparnaðar fyrir
umbjóðanda.92
H 1988 198
Lögmaðurinn A hafði tekið að sér vörn fyrir O í einkamáli. A fól héraðs-
dómslögmanninum B að sækja dómþing við þingfestingu málsins og fá tveggja
vikna frest til ritunar greinargerðar. Héraðsdómslögmaðurinn, sem hafði tekið
að sér að mæta í mörgum málum fyrir ýmsa lögmenn, var staddur á dómþing-
inu, meðan það stóð yfir. Þó þurfti hann oftar en einu sinni að svara í síma, sem
var fyrir utan dómsalinn. Svo fór, að málið var þingfest, án þess að hann veitti
því athygli. Var því bókað, að um útivist væri að ræða, og var málið dómtekið.
Þegar lögmaður varnaraðila, A, frétti þetta, hafði hann strax samband við
lögmann sóknaraðila, sem neitaði um endurupptöku málsins. A óskaði þá eftir
endurapptöku við héraðsdómara, sem varð við því að heimila munnlegan
málflutning um endurupptökukröfuna. Með úrskurði sínum hafnaði héraðs-
dómari endurupptöku málsins, en sú niðurstaða var kærð til Hæstaréttar. f dómi
Hæstaréttar segir: „Á reglulegum bæjarþingum í Reykjavík eru að jafnaði
þingfest mörg mál. Þing sækja oftast nokkrir lögmenn, sem hafa hver fyrir sig
tekið að sér að mæta í málum á vegum annarra lögmanna, oft margra. Eftir að
fram var komið, að ekki var vegna stuttrar fjarveru lögmanns úr bæjarþings-
stofu mætt í máli þessu, var eftir 3. og 4. mgr. 118. gr. laga nr. 85/1936 rétt að
endurapptaka málið“.
Þótt þess sé ekki getið sérstaklega í dóminum, má búast við því, að O hafi
ekki veitt sérstakt samþykki sitt við því, að lögmaðurinn B mætti af hans hálfu
við þingfestingu málsins.
90 Páll Sigurðsson: Samningaréttur. bls. 177.
91 Gomard: Civilprocessen, bls. 247.
92 Munch-Pedersen: Den danske Retspleje II., bls. 75.
224