Hugur - 01.01.1991, Page 12
10
Atli Harðarson
HUGUR
skilningi að hann nýtur sjálfræðis og hellir viljandi (ótilneyddur) kóki
í glas sitt og ber fulla ábyrgð á því. En er hann frjáls í þeim skilningi
að hann hafi sjálfstjórn? Ekki ef hann telur öll rök mæla gegn því að
drekka kók en getur ekki staðist freistinguna. Ef kókið er freisting
sem hann getur ekki staðist þá skortir nokkuð á að hann hafi fulla
sjálfstjóm og því hæpið að tala um að val hans sé frjálst. Ef aftur á
móti er um það að ræða að maðurinn telji kókdrykkju heilsuspillandi
en nógu ánægjulega til að ánægjan borgi hugsanlegt heilsutjón þá er
valið frjálst enda í fullu samræmi við gildismat þess sem velur.
Svarið við spurningunni, hvað er að vera sjálfrátt um val sitt, er
því: menn ráða sjálfir hvað þeir velja (þ.e. hafa fulla sjálfstjóm) ef og
aðeins ef val þeirra stjórnast af vilja (þ.e. gildismati) þeirra (þ.e. því
hvað þeir telja best). Nú á eftir að svara seinni spurningunni: Hvað er
að vera sjálfrátt um vilja sinn?
Að manni sé sjálfrátt um hvað hann vill (þ.e. telur best) hlýtur að
fela í sér að hann móti sjálfur gildismat sitt, stjórni því sjálfur hvað
hann telur gott, eftirsóknarvert og svo framvegis. Þetta svar þarfnast
nánari skýringa. Áður en ég sný mér að þeim ætla ég að fjalla svolítið
um sjálfstjóm.
3. Sjálfstjórn og skynsemi
Að ráða sjálfur vali sínu og gerðum kallast í daglegu tali sjálfstjórn.
Þeir sem eru svo lánsamir að breyta jafnan í samræmi við sína betri
vitund (velja í samræmi við gildismat sitt) eru sagðir hafa góða sjálf-
stjórn. Sjálfstjórn felur raunar í sér æði margt, sem ekki verður gerð
grein fyrir hér, þar á meðal hugrekki, dugnað, þolinmæði og stillingu.
Án þessara dyggða tekst mönnum tæpast að breyta eftir því sem
viljinn býður (þ.e. láta val sitt stjórnast af gildismati sínu) nema í
besta falli með höppum og glöppum.
Ef til vill virðist það ekkert undarlegt að fólk hafi stjórn á eigin
gerðum. Hitt virðist kannski öllu undarlegra hversu oft menn breyta
gegn betri vitund, enda hafa ýmsir heimspekingar litið á veikleika
viljans, eða breyskleika mannanna, sem hálfgerða þverstæðu og sagt
sem svo að menn hljóti að gera það sem þeir vilja og vilja það sem
þeir telja best.
Þetta er að því leyti rétt að skynsemin er kjarni manneðlisins og
það sem menn gera f fyllsta skilningi sjálfir (þ.e. þegar þeir hafa full-