Hugur - 01.01.1991, Side 100
98
Ágúst Hjörtur Ingþórsson
HUGUR
Nákvæmni er svo sannarlega eitthvað sem skrifræðið þrífst á eins
og við þekkjum af öllum tví-, þrí- og fjórritum sem starfsmenn þess
safna. En nákvæmnin kemur líka niður á hraðanum — sem ég býst
við að flestir geti verið sammála um að ekkert hreinræktað skrifræði
sé þekkt fyrir. Hvað varðar einræðni, sem andstæðu margræðni, þá
held ég að Weber hafi rétt fyrir sér í því að skriffinnarnir vilja hafa
skýrslur sínar og fyrirmæli sem skýrust og einræðust þannig að
ekkert fari milli mála. Hins vegar held ég að nákvæmniskrafan geri
þeim ansi oft erfítt fyrir og minni menn í því sambandi á úrskýringar
sem fylgja skattskýrslum. Þekking á möppunum er óumdeilanleg,
enda fundu menn ekki upp orðið möppudýr að ástæðulausu. Hvort
möppudýrin skilja svo alltaf það sem í möppunum er eða hvort þeir
muna hvað er komið þangað og hvað ekki, eða hvort þeir finna það
sem þar er þegar á þarf að halda, er svo önnur saga.
Þá er það samfellan í starfi skrifræðisskipulags. Hér er líklega ein
sterkasta hlið þess; enginn einn starfsmaður er ómissandi vegna þess
að skipulagið krefst ekki einhverra tiltekinna einstaklinga, aðeins
fólks sem getur lagað sig að starfs- og hugsunarhætti þess. Samfellan
veldur því að fólk fær stundum á tilfinninguna, eins og Steinn
Steinarr, að fyrirtæki og stofnanir hafi öðlast sjálfstætt líf:
Þinn draumur býr þeim mikla mætti yfir
að mynda sjálfstætt líf, sem ógnar þér.
Weber hafði reyndar forgöngu um það að benda okkur á ógnina sem
getur stafað af skrifræðisdraumnum. En áfram með kostina.
Varfærni, þagmælska og samstaða eru aðalsmerki sérhvers
skrifræðisskipulags, sérstaklega þeirra hreinræktuðu, og slíkt krefst
aga og hlýðni af starfsmönnunum.
Eða er þetta allt sem að framan er rakið kannski bara glansmynd af
skilvirku og hagkvæmu skipulagi sem á sér litla stoð í veruleikanum?
Er þessi greining Webers kannski ekki „greining" þegar öllu er á
botninn hvolft, heldur miklu fremur lýsing á „draumi möppu-
dýrsins“? Að hluta til held ég að svo sé — og mætti halda langa ræðu
um það efni eitt sér, þar sem hægt væri að tíunda öll þekktustu dæmin
um óskilvirkni og árangursleysi skrifræðisins. En segir ekki Steinn
Steinarr það sem segja þarf: