Búnaðarrit - 01.01.1932, Page 48
42
BÚNAÐARRIT
ber aldin, er dökkgrænt ber, hnöttótt, með ógrynni af
fræum í. — I góðum árum sjást þessi aldin alloft á
suðurhluta landsins, þó að eins á sumum afbrigðum, en
öðrum ekki.
Litur kartaflnanna er mjög margvíslegur og einnig
lögun þeirra. Algengasti liturinn hér er sennilega sá
bleiki. Annars eru hvítar kartöflur einnig algengar, og
gular og bláar — en einkum eru þær gulu vinsælar í
nágrannalöndum okkar. En liturinn er ekki alltaf sá sami
að utan og innan á kartöflunum, oft eru t. d. bæði bleikar
og bláar kartöflur hvítar, þegar búið er að flysja þær.
Þær geta verið margvíslega lagaðar, ýmist aflangar
eða alveg kringlóttar, en oft þó dálítið flatar. »Augun«
eru ýmist grunn eða djúp, og oft allmörg. Aðallega eru
þau öðru megin á kartöflunni, aldrei þeim megin sem
taugin frá móðurjurtinni er föst við kartöfluna (»naflann«).
I venjulegri rækt er kyn kartaflna eingöngu aukið
með því, að noía kartöflurnar sjálfar til útsæðis, en það
er eins og menn vita kynlaus æxlun. En sé um kyn-
bætur á kartöflunum að ræða, þá er reynt að fá betri
afbrigði á þann hátt, að sá fræi því, sem í kartöflu-
aldininu myndast. — Kartöflualdinin eru mjög lík rauð-
aldinum (tómötum) meðan þau eru græn og smá, enda
eru þessar tvær jurtir systur að skyldleika, og báðar frá
Ameríku. — Fræplöntur af kartöflum eru ákaflega breyti-
legar, en lengi að þroskast. Fræ kartöflujurtarinnar eru
því aldrei notuð, nema þar, sem fengist er við að fram-
leiða ný kartöfluafbrigði í kynbóta skyni.
Kartaflan er, eins og menn vita, tiltölulega ung ræktar-
planta hér í álfu. En þó er hún ein hin þýðingarmesta
jurt af þeim, sem ræktaðar eru í álfunni, og er notuð
á hinn margvíslegasta hátt.
í fyrsta lagi er hún þýðingarmikil til lífsviðurværis
fyrir mennina, en sem fóður fyrir gripi hefir kartaflan
einnig stórmikla þýðingu. Ennfremur eru kartöflur mjög
notaðar til vínanda framleiðslu og til að búa til sterkju.