Búnaðarrit - 01.01.1932, Page 88
82
B Ú NAÐARRIT
Seinþroska og smávaxin kartöfluafbrigði ættu ekki a5
ræktast hér á íslandi.
í stórum kartöflugörðum má plægja kartöflurnar upp,
og tína síðan upp eftir plógnum. En hvaða verkfæri
sem notuð eru, smá eða stór, hand- eða hestaverkfæri,
þá þarf að athuga vel, að særa ekki kartöflurnar vi&
upptökuna. Þar sem um stórfelda kartöflurækt er að
ræða, má að vísu taka upp með þar til gerðum vélum,
sem til eru af mörgum gerðum, en engin þó fullkomin.
— Einn af helztu kartöfluræktarmönnum Dana, segir
frá því í nýútkominni bók, um kartöflur, að geysilegri
vinnu og ógrynni fjár hafi verið varið til að reyna að
finna upp vélar, til að taka upp kartöflur með, án þess
þó að hægt sé að segja, að það hafi heppnast. Vilja
þær einkum bregðast, ef moldin er rök.
Að athuga við upptöku kartaflna og geymslu.
Eigendur smágarða þurfa að taka útsæði frá til næsta
árs, um leið og upp er tekið. Velja þá útsæðið undan
beztu grösunum, síðan þurka það vel og jafnvel láta
það bakast dálítið í sólskini. Rétt er að taka heldur meira
frá en gert er ráð fyrir að nota, því vanhöld geta orðið á.
Kartöflur sem einhverjar skemmdir sjást á, eða ein-
hver sýkingarvottur, þarf vandlega að taka frá, svo að
þær skemmi ekki frá sér í geymslunni.
Ef moldin er þurr, þegar tekið er upp, þá þarf ekki
að þurka kartöflurnar áður en þær eru settar í vetrar-
geymslu, en séu þær blautar, er það sjálfsagt. Mikill
hægðarauki er að því að eiga kartöfluskóflu, ef moka
þarf kartöflum skyndilega saman eða í poka. Skóflur
þessar eru gerðar úr sterkum stálvír og eru hin beztu
verkfæri. Ættu þær að vera til á hverjum stað, þar sem
um sæmilega stóra kartöflugarða er að ræða. Jafnan skal
fara sem varlegast með kartöflur að öllu leyti, ekki fara
með þær eins og væru þær steinar, en ekki lifandi jurtir.