Morgunn - 01.12.1969, Síða 70
150
MORGUNN
sálin, andinn, persónuleikinn, sem stjórnar bæði alheimin-
um og lífi hvers einstaks manns.
Við birtu þess nýja morguns, munu menn sjá og sannfær-
ast um það, hvílík firra það er, að reyna að halda dauða-
haldi í þær úreltu kenningar, að sálin sé ekkert annað en
ein hlið á starfsemi heilafrumanna, sem hverfi og verði að
engu um leið og líkaminn deyr. Allar nýjustu rannsóknir
jafnt á sviði eðlisfræðinnar og sálarfræðinnar, og þó einkum
dulsálarfræðinnar, benda til sjálfstæðs sálarstarfs og sálar-
orku og þess, að persónuleiki mannsins geti þegar í þessu
lífi starfað meira og minna óháð líkamanum og skynfærum
hans. Og jafnframt hljóta að falla úr gildi hin gömlu tylli-
rök fyrir því, að sú skoðun brjóti í bága við vísindalega hugs-
un og heilbrigða skynsemi, að maðurinn haldi áfram að lifa
og vera til, starfa og þroskast eftir dauða líkamans.
Sú staðreynd, að dularmögn mannssálarinnar eru þess
jafnvel umkomin að hafa bein áhrif á hlutina í kringum
okkur, hreyfa þá úr stað og ráða stefnu þeirra, hlýtur óhjá-
kvæmilega að vekja til umhugsunar um þá ábyrgð, sem á
okkur hvílir og fylgir því að vera maður, vera lifandi sál.
Og hún ætti að sýna okkur það ennþá áþreifanlegar, að til-
gangur og takmark lífs okkar og starfs er sigur andans
yfir efninu, sigur þroskans yfir vanþroska og villu, sigur
góðleikans yfir vonzkunni, og að þessu beri okkur öllum
vitandi vits en þó fagnandi að keppa, bæði þessa heims og
annars.
Sveinn Víkingur.