Birtingur - 01.01.1957, Page 94
hann algerlega, sbr. hugmyndina um guð
sem algeran skapara, eða komið á hann
ákveðnu skipulagi, sett honum lög (sbr. þá
hugmynd, að hlutur hlýði ákveðnum
lögmálum). Hugtakið æðsta vera hefur
jafnan legið bakvið heimsfræðibollaleggingar
vestrænna hugsuða, og eru til frægar
röksemdafærslur, sem sanna eiga
tilvist hennar. Varð Immanuel Kant fyrstur
til að benda á, hvers vegna ekki er
mögulegt að sanna tilvist slíkrar veru.
Yrði of langt mál að fara út í rök Kants hér.
En víst er, að verundur dr. Helga er í sama
báti og guð hinna gömlu heimspekinga
hvað það snertir. Ekki get ég neitað, að
æskilegt hefði verið að fá lengri og
nákvæmari greinargerð fyrir
heimshöfundinum og hlutverki hans í
þróunarsögu heimsins og lífsins. En ég vil
leggja áherzlu á, að við erum hér komin út á
yztu þröm mannlegrar hugsunar og höfum
engan reynslugrundvöll að byggja á, enda
hafa heimspekingar deilt um nauðsyn
tilgátunnar um æðstu veru í hvaða mynd,
sem hún hefur komið fram.
En nú má spyrja: Hvaða sannanir eru til um
það, sem dr. Helgi kallar lífgeislan
bioradiation og magnan eða
líf sstarfsíleiðslu (bioinduktion) ? Hvaða
ástæða er til að gera ráð fyrir, að allar
lífverur (reyndar hver einasta efnisögn)
leitast við að framleiða sjálfar sig í
öðrum? Hvaða sannamir eru fyrir beinu
vitundarsambandi milli manna hér á jörðu og
hverjar fyrir vitundarsambandi milli
hnatta? Þetta eru grundvallarspurningar,
sem ég get ekki séð, að Nýall eigi fullgild
svör við.
Fyrst má geta þess, að höfundur Nýals er
sannfærður um, að eðli lífsins sé geislan
(radiation), sem streymir út frá hinni lifandi
veru og hafi tilhneigingu til að framleiðast
(inducerast) í annarri eða öðrum lífverum.
Nú er að sjálfögðu sitt hvað að vera
sannfærður um þetta og að geta fært rök
fyrir því. Hvað færir dr. Helgi því til
sönnunar? Að íleiðing lífsorkunnar sé
staðreynd telur hann sannað með því, sem
gerist í dáleiðslu, fjarhrifum, miðilsástandi
og svefni. Einnig skýrir hann hinar sálrænu
truflanir „hysteri" og „paranoia" með þessu
lögmáli-
Ég vil strax taka fram, hvers vegna ég álít
frá heimspekilegu sjónarmiði vafasamt að
leggja of mikið uppúr þessum tegundum
fyrirbæra. Dáleiðsla, f jarhrif og miðilsástand
eru ekki nógu almenn fyrirbæri til þess að
heimilt sé að draga af þeim jafn altækar og
algildar ályktanir um eðli lífs og
meðvitundar og dr. Helgi gerir. Jafnvel þótt
hér sé um einskonar beint vitundarsamband
að ræða, er engan veginn augljóst hvers
eðlis það er. Þeir sem lagt hafa stund á að
rannsaka þessi fyrirbæri eru yfirleitt
sammála um að viðurkenna þau sem
staðreynd, en hafa enn sem komið er ekki
getað fundið skýringu, sem fullnægir
viðurkenndum vísindalegum mælikvörðum.
Skýringartilgáta dr. Helga er að vísu
athyglisverð, en mér virðist miklum
erfiðleikum bundið að sannprófa, að þetta
beina lífsamband — þessi lífsstarfsíleiðing
— eigi sér stað, jafnvel þótt fyrirbærin gefi
tilefni til að álíta tilgátuna mögulega
skýringu. Mér finnst höfundur Nýals of
djarfur, er hann byggir alla heimspeki sína
á lögmáli, sem hefur ekki öruggari
staðreyndagrundvöll en þetta. Enn vita
líffræðingar og lífeðlisfræðingar harla lítið
um eðli lífsins. Hvers vegna lífvera deyr,
80