Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1987, Blaðsíða 66
64
Kristján Árnason
að gefa einfalda samtímalega reglu sem nær yfir líkindi stuðlasetningar
og hendinga hvað varðar tóma rímið. En til þess að þetta blessist, þarf
skilgreiningin að ganga út frá sérhljóðinu, bæði hvað varðai' stuðlasetn-
inguna og hendingamar. Þar með væri sérhljóðið orðið þungamiðjan í
báðum þessum bragskilyrðum. Það er hins vegar afskaplega ósennilegt
að skilgreina beri stuðlasetninguna fyrst og fremst út frá sérhljóðinu.
Flestir eru sammála um það að hún sé fyrst og fremst samhljóðarím og
að slíkur sé uppruni hennar.
Hér er sem sé nokkur munur á hendingum og stuðlasetningu. Hvað
sem líður öllum líkindum milli þessarra tveggja rímaðferða, þá verður
að gera ráð fyrir því að sérhljóðin hafi tekið þátt í hendingunum á virk-
ari hátt en í stuðlasetningunni. Sérhljóðin á eftir stuðlunum skiptu ekki
máli, en sérhljóðin í hendingunum gerðu það. í aðalhendingunum urðu
sérhljóðin að vera hin sömu, en í skothendingunum urðu þau að vera
ólík. Það að sérhljóðin voru ólík í skothendingum þýðir að sjálfsögðu
ekki að sérhljóðin hafi ekki skipt máli þar. Þessi reglulega aðgreining
milli skothendinga og aðalhendinga hefur það í för með sér að ólík-
indin milli sérhljóðanna voru partur af rímreglunum. Þetta var ekki fyrir
hendi í stuðlasetningunni.3
Við þetta bætist að þegar við lítum á sögulegar skýringar á uppruna,
þá virðist engan veginn hægt að yfirfæra þær skýringar sem áðan voru
nefndar á uppruna sérhljóðastuðlunarinnar sem skýringar á uppruna
tóma rímsins í hendingunum.
Ekki er hægt að skýra „tómu hendingamar“ út frá því að upphaflega
hafi sérhljóð myndað hendingar, og síðan hafi tómar hendingar orðið
almennar vegna einhveiTar sérþróunar. Ekki er heldur eðlilegt að gera
ráð fyrir einhverju valfrjálsu ósýnilegu samhljóði, sem myndar hend-
ingar.
■’ Að vísu segir Snorri, að það sé fegurra að hafa ólík sérhljóð á eftir stuðlunum,
en það er ekki skylda. Stuðlasetning með þátttöku eftirfarandi sérhljóða er hins vegar
alveg hugsanleg, eins og t.a.m. í kalevalakveðskapnum finnska, þar sem sérhljóðin á
eftir verða að ríma saman samkvæmt ákveðnum lögmálum. Finnska stuðlasetningin
erþví upphafsrím eins og geimanska stuðlasetningin, nema hvað sérhljóðin taka þátt f
henni á svipaðan hátt og í hendingunum.