Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga - 01.01.1931, Page 68
50
TÍMARIT ÞJÓÐRÆKNISFÉLAGS ÍSLENDINGA
í hjarta mér rósviður rót eitt sinn sló,
og þar rændi mig friði og ró.
Og hver smágrein er þrotlausum þyrnum stráð,
eg er þeirra kvalræði endalaus bráð;
því harmur á hrafnsvartar rósir! —
Nú er hvirfing af rósum á hjarta míns slóð —
ein helbleik sem dauðinn, ein rauðari en blóð.
Þær vaxa og vaxa — eg örmagna er,
hver örlítill broddur mig stingur og sker.
Já, harmur á hrafnsvartar rósir! —
VI. DRAUMAR.
(Lag eftir Franz Schubert)
Mig dreymdi svo fagra drauma
um daggperlað blómaskraut,
og fjaðraglit syngjandi fugla,
er flugu um hæðir og laut.
Eg hrökk úr sætum svefni
í svölum vetrargust,
er hundar geltu í hlaði
og hrafnarnir krunkuðu á bust.
Á hélugráum glugga
þó glitraði frostrós smá,
er benti á brúðkyrtil dauðans,
en batt í sér vorsins þrá.
Mig dreymdi um meyju mæra
og munað og faðmlög heit,
og elskenda eiða og kossa
í ódáins sælureit. —
En haninn gól við hurðir —
eg hrökk af værum blund.
Nú sit eg sem í draumi
og syrgi þá unaðsstund.
Já, oft og einatt síðan
með óró hjartað slær, —
því fjarri' eru fuglar og blómin,
og fjarst þó mín drauma-mær.