Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga - 01.01.1931, Side 80
62
TÍMARIT ÞJÓÐRÆKNISFÉLAGS ÍSLENDINGA
Atgerfi og óðsnild gæddur
oddviti hér margur sat. —
Hér var Klemens fróður fæddur,
fegri bólstað hvergi gat.
Kveðnir voru í klettaranni
kvellisjúkum hetjuljóð.
Hér rann, enda öldnum manni
andagift í merg og blóð.
Átta hrammar studdu stórir
Starkað fyr við örvaþing.
Hérna dala faðmar fjórir
fagna öldnum Húnvetning.
Sumardýrðin seiðir, dregur,
sveitin fagnar höndum tveim.
Greiður fjólum vafinn vegur
vegfaranda býður heim.
Minti á ýmsan mannlífs vanda:
menning, spilling, þroska, stríð, —
þegar saman blóði blanda
Blanda og Svartá, skamt frá Hlíð.
j? ¥ ¥
Einn eg sit, við opinn glugga,
æskustöðvar fanginn sé. —
Hálfbjört nótt, með skin og skugga,
skýrir, túlkar lífsins vé.
Margt er vel um heimahaga,
hjúpast slysin frægðarblæ.-----
Háð var milli Horns og Skaga
hjörvaþingið mest á sæ.
Nú er kyrð og logn á legi,
lítt þar ber á Heljarslóð. —
Hækkar sól með heilla degi,
herfjöturinn laus af þjóð.
Sæ og nótt, í sjafnaböndum,
sé eg halda um landið vörð.
Sólarfar, með seglum þöndum
svífa um þverann Húnafjörð.
* * *
Verður nægur vetrarforði
víðsýnið um Norðurland, —
Allsnægtir á andans borði,
öll þótt sigling fari í strand.
Ef þeir verða efstu fundir
átthaganna og ferðamanns:
Geymi eg kærar kveðjustundir,
kvikmynd dýra Sólarlands.