Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga - 01.01.1954, Qupperneq 48
30
TÍMARIT ÞJÓÐRÆKNISFÉLAGS ÍSLENDINGA
bók endar á annál, er nær til ársins
1394.
Ég ætla að birta hér það, sem
segir í annálnum frá árinu 1382:
Kom til íslands Andrés Sveinsson
hirðstjóri, skipaður af kóng Ólafi.
Item bréf Urbani papa kom til Nor-
egs og upp lesið að hverri kirkju og
Robertus, er kallaðist papa, boðaður
bannsettur. Kosinn síra Hákon ívars-
son til erkibiskups af öllum kórs-
bræðrum og ætlaði í burt til papa
og komst eigi lengra en í Þýðversku-
land. Þar frétti hann, að vígður var
til erkibiskups á papagarði danskur
leikmaður, er Nikulás hét. Forgekk
skip staðarins í Skálholti. Komst af
fólkið á báti til Grænlands með
miklum jarteiknum. Kenndist Jón
kjagi þrjú morð og var kviksettur
síðan. Varð endilegur vegur á
Kisamálum, og vann Sýslu-Oddur.
Efldust flokkar og friðleysi.
Ástandið er ekki gott. íslendingar
hafa lotið Noregskonungum á aðra
öld og hafa nú enn fengið nýjan
konung og nýjan hirðstjóra. Úti í
álfunni gengur á ýmsu, einn páfinn
bannfærir annan, og leikmaður er
skipaður erkibiskup í Noregi þvert
ofan í vilja allra kórsbræðra. Og
ekki tekur betra við, þegar til ís-
lands kemur, því að þar virðast
einkunnarorðin vera: flokkadrátt-
ur og friðleysi. En forn stórhugur
og ást á bókum lifir þó enn í land-
inu, og er Flateyjarbók glæsilegasta
dæmi þess. Skal því nú skýrt örlítið
frá útgerð hennar.
Jón hét maður Hákonarson, fædd-
ur árið 1350. Var hann sjöundi maður
frá Hvamm-Sturlu, föður Snorra.
Langalangafi Jóns var Svarthöfði
Dufgusson, er mjög kemur við
sögu Sturlunga og talinn er einn
helzti heimildarmaður að Þórðar
sögu kakala. Er Jóni því ættgengt
að hafa yndi af sögum og bókum.
Ekki er vitað með vissu, hvar Jón
bjó 1382, er hann hóf að láta rita
Flateyjarbók, en kunnugt, að hann
keypti Víðidalstungu 1385 og kann
að hafa verið kominn þangað áður.
Hafði afi Jóns búið þar lengi og
síðan föðurbróðir hans, og af honum
keypti hann jörðina. Annars skiptir
þetta ekki miklu máli. Aðalatriðið
er framtak Jóns, og er það því
merkilegra sem hann er aðeins 32
ára, þegar hann ræður sr. Jón Þórð-
arson til verksins, en svo hét annar
aðalritari Flateyjarbókar samkvæmt
formála hennar. Síðar tók sr.
Magnús Þórhallsson við verki sr.
Jóns og lauk bókinni, auk þess sem
hann lýsti hana alla, þ. e. skreytti
hana myndum og dró upphafsstafi.
Sú Flateyjarbók, er vér nú höf-
um, er nokkru stærri en sú, er
skrifuð var fyrir Jón, því að hún
var aukin á síðari hluta 15. aldar.
Þegar Magnús Þórhallsson skildi
við hana, var hún 202 blöð, en varð
með viðbótinni alls 225 blöð eða 450
blaðsíður. Þurfti í bókina alla hvorki
meira né minna en 113 kálfskinn, en
2 blöð fengust úr hverju skinni.
Flateyjarbók er einna bezt varð-
veitt hinna fornu handrita og á sér
merkilega sögu, er Sigurður Nordal
hefur rakið á mjög skemmtilegan
hátt í formála fyrir 1. bindi 2. út-
gáfu Flateyjarbókar (Reykjavík
1944—’45). Lýsir hann þar bæði til-
orðningu hennar og afdrifum, og