Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga - 01.01.1962, Page 51
SITTHVAÐ UM ÍSLENZKAR BÓKMENNTIR
33
þó að hann vitni oft til „enskra“,
þ.e. enskra sjómanna og kaupmanna.
Gísli Hákonarson (1582—1631)
Páll Eggert Ólason getur eigin-
iega aðeins eins manns, sem þýtt
hafi sálma úr ensku máli, „og var
það óvenjulegt á þeim dögum, að
íslendingar þýddu úr ensku“ (MM
IV, 736—8). Maðurinn var Gísli lög-
maður Hákonarson, einn hinn mesti
gæfu- og glæsimaður á sinni tíð.
Eins og af fyrirsögn þessa kafla má
ráða, varð Gísli Hákonarson ekki
langlífur. Hann var lögmaður í
Bræðratungu á árunum 1614—31.
Ekki getur Páll þess, hvar hann hafi
numið skólalærdóm, en einhvers
staðar hefir hann numið enskuna,
úr því hann þýðir bænasálminn „Ó
herra guð ég hrópa á þig“ (Lbs. 739,
8vo) úr því máli.
Ólafur Einarsson (1573—1659)
Þó getur Páll Eggert og annars
manns, er nokkur kynni hafði af
enskum bókmenntum, a.m.k þeim,
sem á latínu voru skrifaðar. Sá mað-
ur var séra Ólafur Einarsson í
Kirkjubæ, sonur hins merka skálds
Einars Sigurðssonar, bróðir Odds
biskups og faðir séra Stefáns Ólafs-
sonar skálds í Vallanesi. Hann var
við nám við háskólann í Kaup-
mannahöfn árin 1594—98, var í
miklu áliti fyrir lærdóm og gerðist
mikilvirkara skáld, einkum á sálma,
en nokkur annar á hans dögum.
Meðal annars snéri hann nokkrum
af hinum latínsku Davíðssálmum
Georgs Buchanans (1506—1582) hins
fræga skozka skálds á íslenzku.
Þetta þarf að vísu ekki að merkja,
að hann hafi þekkt meira af hinum
latínsku ritum hins fræga skozka
humanista, og enn síður að hann
hafi kunnað ensku. Buchanan reit
á latínu, og frægast verka hans er
einmitt Psalmorum Davidis Para-
phrasis Poetica, er hann setti saman
1547 svo sem til yfirbótar við kirkj-
una og til þess dæmdur af portú-
gölskum rannsóknarrétti Jesúíta.
En þýðingin náði skjótri heims-
frægð: „In Buchanan’s own lifetime
it was introduced into the schools
of Germany, and an edition set to
music was published in 1595.“ (Cam-
bridge Hisi. of E. Lii., III, 183). Það
getur varla leikið á því vafi, að
sálmarnir hafi verið kunnir og metn-
ir af prófessorum Hafnarháskóla á
þeim árum, sem Ólafur var þar: ef
til vil'l hefur hann einmitt kynnzt
þeim í þessari þýzku útgáfu með
söng og öllu saman. Annars segir
P.E.Ó. um hann, að þótt kvæði hans
séu flest frumort, þá noti hann
öðrum skáldum fremur útlenda
bragarhætti, þá er fyrst komust inn
í landið með hinum fyrstu íslenzku
sálmabókum. Nú vill svo til, að
meðal kvæða Stefáns sonar ólafs má
finna bragarhátt, sem líka hittist í
kvæðum skozkra skálda (Alexander
Scott) á 16. öldinni, en vafasamt mun
þó að draga af því nokkrar ályktanir
um það, að þeir feðgar hafi kunnað
ensku og lesið kvæði skozkra skálda.
Er líklegra, að bragarhátturinn
(Björt mey og hrein) hafi verið al-
mennur í Evrópu og þeir feðgar
fengið hann í Danmörku eða frá
Þýzkalandi, enda finnst bragarhátt-
urinn og sálmalagið, sem er því nær
eins og lagið við Björt mey og hrein
í kóralbók Bachs undir lagboðanum
Ach Gotí und Herr.