Morgunblaðið - Sunnudagur - 12.10.2014, Blaðsíða 58
58 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 12.10. 2014
BÓK VIKUNNAR Bók Amy Tan, Leikur hlæjandi láns,
hefur verið endurútgefin í kilju. Þetta var fyrsta skáldverk
höfundar og sló í gegn víða um heim.
Bækur
KOLBRÚN BERGÞÓRSDÓTTIR
kolbrun@mbl.is
Síðustu árin hafa frægar skáldsagna-persónur snúið aftur í bókum nú-tímahöfunda. Þannig má enn lesa
um ævintýri Sherlocks Holmes, James
Bond og Jeeves og Wooster, þótt Arth-
ur Conan Doyle, Ian Fleming og P.G.
Wodehouse séu löngu látnir. Nú snýr
hinn heimsfrægi belgíski spæjari Her-
cule Poirot aftur í The Monogram Mur-
ders, nýrri skáldsögu eftir bresku skáld-
konuna Sophie Hannah.
Fyrirfram mætti ætla að eftiröpun eins
og hér um ræðir myndi ekki lánast sér-
lega vel. En Hannah kemur á óvart í bók
sem ber með sér ýmis einkenni Agöthu
Christie en er samt snjöll á eigin for-
sendum. Bókin hefur slegið í gegn hjá
lesendum og er á breskum metsölulistum
og metsölulista New York Times og hef-
ur fengið prýðilega
dóma.
Sögusviðið er
London árið 1929
og sögumaður er
hinn rúmlega þrí-
tugi Edward
Catchpool, lög-
reglumaður hjá
Scotland Yard,
sem er vitanlega
ekki nærri því jafn
snjall og vinur
hans Poirot og líður sjálfum stundum
eins og hann sé utangátta. Þeir félagar
rannsaka lát þriggja einstaklinga en lík
þeirra fundust á hóteli og ermahnöppum
hafði verið stungið upp í munn þeirra. Í
ljós kemur að þessir einstaklingar tengj-
ast. Rannsóknin fer í ýmsar óvæntar áttir
og hinir grunuðu eru margir. Loka-
uppgjörið fer svo vitanlega fram í her-
bergi þar sem þeir grunuðu eru saman-
komnir og Poirot leysir morðgátuna, og
gerir það vitanlega í löngu máli.
The Monogram Murders er bráð-
skemmtileg bók, full af óvæntum atvikum
og lausnum sem koma á óvart. Það má
segja að sumt í söguþræðinum sé full æv-
intýralegt og reyni nokkuð á trúgirni les-
andans, en þannig var það nú líka hjá
Christie sjálfri.
Hannah á ekki í neinum vandræðum
með að endurlífga Poirot sem er lifandi
kominn á síðum bókarinnar með alla sína
sérvisku og óvenjulegu snilli.Verulega
ánægjulegir endurfundir. Svo má velta
því fyrir sér hvort Hannah endurtaki
leikinn og skrifi aðra bók um Poirot. Það
væri ekki svo galið því þau smellpassa
saman.
Orðanna hljóðan
ENDUR-
KOMA
POIROT
Hercule Poirot snýr aftur.
Skemmtileg og snjöll
glæpasaga.
Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor í ís-lenskum bókmenntum við Háskóla Ís-lands, er höfundur bókarinnar Náttúra
ljóðsins – Umhverfi íslenskra skálda. „Þessi
bók fjallar um náttúrusýn og umhverfisvitund
í íslenskri ljóðagerð frá 19. öld og til nú-
tímans. Það er auðvitað af nógu að taka en ég
vel skáld sem hafa sérstaka sýn á náttúruna
og yrkja mikið um hana,“ segir Sveinn Yngvi.
„Ég byrja á Jónasi Hallgrímssyni og fjalla
einnig um Steingrím Thorsteinsson, Matt-
hías Jochumsson, Huldu, Snorra Hjartar-
son, Hannes Pétursson og Gyrði Elíasson.
Það sem við köllum rómantík og birtist í nátt-
úrusýn 19. aldar heldur að ýmsu leyti áfram í
nútímaljóðum en ummyndast um leið.“
Hafa skáldin sem þú fjallar um í bókinni
líka sýn?
„Sýn þeirra er bæði lík og ólík, einstök
skáld leggja mismikla áherslu á ólíkar hliðar
íslenskrar náttúru. Jónas Hallgrímsson hefur
sem skáld og vísindamaður mjög margbrotna
sýn á náttúruna, hún birtist þar í öllum sín-
um fjölbreytileika, hann lýsir eldgosi og yrkir
líka um sveitasælu. Ég fór þá leið að nota
Jónas sem ákveðinn grunn og dreg í fram-
haldi af því út ákveðna þræði og rek þá
áfram.
Matthías Jochumsson yrkir Hafísinn og
fleiri slík kvæði og Einar Benediktsson yrkir
á líkum nótum. Matthías er að takast á við
ægifegurðina og hina hrikalegu sýn í íslenskri
náttúru, eins og Jónas í eldfjallakvæðinu
Fjallið Skjaldbreiður. Hjá Steingrími Thor-
steinssyni eru sterkar hjarðljóðamyndir sem
við finnum líka hjá Jónasi. Hulda hefur mjög
samsetta náttúrusýn og flókna. Hún er ekki
vísindamaður eins og Jónas og ljóð hennar
eru því ekki náttúrufræðileg en rómantískir
og nýrómantískir þættir vega salt hjá henni
þannig að náttúran er áþreifanleg um leið og
hún er táknræn.
Nútímaskáldin, og þá á ég við skáld á 20.
öld og fram á okkar daga, varpa svo landslag-
inu inn á við og yrkja um hugarheima. Þetta
greini ég einna helst hjá Gyrði Elíassyni. Þá
erum við komin í mjög huglæga náttúru og
kortlagningu sálarlífsins út frá landslags-
hugtökum sem er mjög forvitnilegt fyrirbæri.
Um leið hefur Gyrðir, og ýmis önnur nútíma-
skáld, mjög næma tilfinningu fyrir umhverf-
inu. Ljóðmælendur Gyrðis eru oft á gangi en
gangan er áberandi fyrirbæri í evrópskri
rómantík, og þetta útfærir Gyrðir á sinn hátt.
Hann er alls ekki hreinræktaður rómantíker
en mér finnst samt merkilegt að sjá hvað
gönguhefðin er sprelllifandi í ljóðum hans.
Hannes Pétursson kemur úr annarri átt en
hefur mjög sterk tengsl við íslenska og þýska
rómantík og módernisma. Rómantísku þætt-
irnir endurspeglast ekki síst í næmum skiln-
ingi hans á umhverfinu og því hvernig náttúr-
an er nákomin en um leið eins og spegill
mannsins. Þarna er líka um að ræða lifandi
samband sem er tjáð í skáldskap. Ljóðabókin
Heimkynni við sjó er frábært dæmi um
þetta, þar sem ljóðskáldið er á göngu í fjör-
unni og yrkir um fuglalíf, steina og hafið.
Snorri Hjartarson fer enn eina leið að þessu
og ég ber hann saman við John Keats, en
mér finnst þeir að mörgu leyti vera lík skáld
sem eiga sameiginlega ákveðna afstöðu til
heimsins og skáldskaparins. Þar eru því bein
tengsl milli 19. og 20. aldar skálda sem reyna
að skynja og skilja náttúruna án þess að vera
sjálfhverf.“
Niðurstaða þín er þá sú að rómantíkin lifir
enn í nútímaskáldskap?
„Ég myndi gerast svo djarfur að segja að
rómantíkin lifi ekki bara góðu lífi í nútíma-
skáldskap heldur í viðhorfum okkar Íslend-
inga til náttúrunnar og umhverfismála. Áhugi
nútímamanna á hálendismálum er til dæmis
að vissi leyti hárómantískur, en þar er há-
lendið eitthvað háleitt og ægifagurt sem togar
okkur til sín og við viljum varðveita. Svona
viðhorf hefðu verið óhugsandi fyrir daga róm-
antíkurinnar og við erum að því leyti beinir
arftakar hennar.“
ÁHUGI NÚTÍMAMANNA Á HÁLENDISMÁLUM ER AÐ VISSI LEYTI HÁRÓMANTÍSKUR
Skáld og rómantík
„Ég fór þá leið að nota Jónas sem ákveðinn grunn og dreg í framhaldi af því út ákveðna þræði
og rek þá áfram,“ segir Sveinn Yngvi um bók sína, Náttúra ljóðsins.
Morgunblaðið/Eggert
NÁTTÚRUSÝN OG UMHVERFISVIT-
UND Í ÍSLENSKRI LJÓÐAGERÐ FRÁ
19. ÖLD OG TIL NÚTÍMANS ER
UMFJÖLLUNAREFNI SVEINS
YNGVA EGILSSONAR Í BÓKINNI
NÁTTÚRA LJÓÐSINS.
Það er erfitt að velja uppáhaldsbók, en Grimmsystur er eig-
inlega uppáhaldsbókin mín. Mér finnst svo gaman að lesa um
þær vegna þess að þær eru alltaf að lenda í ævintýrum og eru á
svo mörgum stöðum. Þarna er mörgum æv-
intýrum blandað saman og Mjallhvít er kenn-
arinn þeirra.
Mér finnst Dimmuborgir líka vera mjög
skemmtileg því þar er svo mikið að gerast og
þar er hús sem er hálft úti á fjallsbrún. Ég hafði
ekki lesið Dimmuborgir áður en þegar rithöf-
undurinn kom í skólann og las fyrir okkur þá
fattaði ég að ég gæti kannski verið hrifin af
bókinni. Ég fór á skólabókasafnið, fann bókina
og fór að lesa hana á fullu og datt alveg ofan í hana.
Ég hef mjög gaman af ævintýrabókum. Þegar ég var lítil las
mamma Harry Potter fyrir mig og bróður minn á kvöldin. Ég
féll fyrir því. Ég öfundaði mömmu, pabba og bróður minn af því
að geta lesið en ég var bara á leikskóla og kunni ekki að lesa.
Svo lærði ég að lesa og það er mjög gaman af því að ég kann
það svo vel.
Í UPPÁHALDI
HJÖRDÍS FREYJA KJART-
ANSDÓTTIR 9 ÁRA
Hjördís Freyja hefur ákaflega gaman af að lesa og heldur hér á bókum sem ekki
er langt síðan hún las sér til mikillar ánægju.
Morgunblaðið/Golli
Dimmuborgir.