Tímarit Máls og menningar - 01.03.1954, Síða 77
VOLAÐS VERA
67
varla lengra. En hann á eftir að komast að raun um, að sú ágizkun er
röng. Það tekur hann hátt á annan klukkutíma að arka Jaangað; og
yfir á að fara.
Nýr ábúandi á Stormsveipsstöðum, og kom einn síns liðs með Jmngan
poka og tösku — það spurðist um sveitina. En enginn skiptir sér af
manninum. Allir vita, að hann hlýtur að vera geðbilaður, ellegar á
flótta undan lögum og rétti. Það er ekki heilbrigt að setjast að í köldum,
niðurníddum bæjarhúsum, aleinn og engum þekktur. Og kominn vetur.
Slíkt er óðs manns æði.
2.
I birtingu skreiðist hann út úr húsum og sækir snjó. Það er ekki um
annað að velja en bræða snjó. Hann fyllir stóran dall, mylur vænan
köggul í steikarpott, bregður síðan yfir veiklulegan, bláan loga í stónni,
sem einbúanum tekst að halda lífinu í með innviðum bæjarins. Þannig
fær hann vatn. En óratími fer í þetta norp. Það er ískalt inni sem úti,
farið að ganga á telaufin mannsins, einnig smjörlíkið og brauðið, sem
hefur verið aðalfæða hans þessar vikur síðan liann kom. Kjötdósirnar
úti í horninu eru fleiri opnar en óuppteknar; og ekki nema fimm. Hins-
vegar eru málningarkrúsir og farðakrukkur á víð og dreif um kompuna
sem hann hírist í. Veggirnir gapa þó ekki lengur með rifum og fóðri
og köngurlóarvef, Jrví að margbreytilegasti samsetningur af litum og
línum blasir þar á fastþöndum strigadúkum. Maðurinn er listmálari.
Hann er rösklega miðaldra, rengluvaxinn, loðbrýndur og hvítsköll-
óttur; en þykkur kraginn umhverfis skallann er dökkur eins og hamra-
belti við jökulrætur. Augun eru svört eins og tveir hrafnar, og þó ekki
kvikari en svanir í sárum. Hendur hans bera rauðan lit kvöldhimins,
bláan lit hafs, hvítan lit vetrarríkis; og flesta aðra liti. Hann vantar
einn fingur. Þessar marglitu, skorpnu hendur leita eftir því sem hægt
er að leggja til munns; einnig kreista þær harðnaða pensla, svartkrítar-
brot og spjöld. Svo ráðast þær stundum hvor á aðra sér til hita, og
reyna í samlyndi að orna sér hjá stónni áður en kústur eða matarögn
freistar þeirra að nýju. Einnig kemur fyrir, að þær snerta grammófóns-
garm, sem kúrir til fóta í bóli mannsins. Á þeim fóni er ætíð sama
platan: Tvö smálög eftir Gershwin, og upphafið á Rhapsody in Blue