Tímarit Máls og menningar - 01.02.1960, Blaðsíða 32
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
tímum. Þetta eru ljóð Jónasar í myndum. Þarna eru „fífilbrekka gróin grund“
og „grösug hlíð með berjalautum“ endurfæddar.
Kristjón skildi vel, þegar ég sagði „endurfæddar“, því að hann kunni endur-
holdgunarkenninguna.
Hinn rakarinn, sem vann á stofunni hjá Kristjóni, hafði nú fengið einn
órakaðan í stólinn til sín. Ég hafði oft virt hann fyrir mér í laumi og hugsað:
Skyldi honum ekki mislíka það við mig, að ég læt hann aldrei klippa mig, ekki
einu sinni skafa af mér skeggið. Þetta var góðlegur maður og laglegur, með
ofurlítið innhverft andlit. Mér datt oft í hug: Hann er liklega ekki rauður.
„Jæja vinur, hvernig gengur það fyrir vestan?“ spyr ég Kristjón.
„Það gengur vel.“
„Hefur einfótungurinn sést síðan?“
„Nei.“
„Hvað heldur þú að einfótungurinn hafi verið?“
„Það get ég ekki sagt. En hann hefur ekki verið hugarburður, því það var
greind og merk kona, sem horfði á hann vega sig áfram á stönginni neðan frá
sjó upp að fjalli, og það var í björtu um morguninn. Hún var að hleypa kind-
um í haga.“ Og nú skellti Kristjón klippunum á borðið fyrir framan manninn
og brá sér inn í klefa, sem lá austur úr rakarastofunni, staldraði þar við tæpa
mínútu, kom svo aftur og gekk léttum skrefum til mannsins í stólnum, greip
klippurnar af borðinu og hélt áfram verki sínu og hallaði höfðinu á ýmsa
vegu, Iíkt og hann væri að leggja kollhúfur.
Hvern fjandann var hann að gera inn í klefann? hugsaði ég. Ég gat ekki séð,
að hann ætti neitt erindi þangað. Ég tek aftur upp samtalið og segi: „Ef þeir
eru skapaðir þarna vestra eins og annað fólk, þá ættu þeir ekki að sjá ofsjónir
á morgnana. Heldurðu að þetta hafi getað verið Bárður Snæfellsás?“
„Nei! Hann gekk nú á tveimur fótum eins og við, sá kall.“
„Heldurðu að Bárður Snæfellsás hafi verið til?“
„Hann hefur verið til sona eins og aðrar þjóðsagnapersónur.“
„Óklárt svar, konningi. Þjóðsagnapersónur eiga sér ýrniss konar uppruna.“
„Hefurðu séð Bárðarkistu?“
„Ekki so ég muni. En ég hef heyrt talað um hana.“
„Það er það mesta náttúruundur, sem ég hef séð. Hún er alveg eins og kista,
með kúptu loki og lykli, sem stendur í skráargatinu. Það er sagt, að í henni
hafi Bárður lokað gullið sitt.“
„Hvar er hún nú aftur?“
„Hátt uppi í fjalli sunnan á nesinu.“
22