Tímarit Máls og menningar - 01.07.1980, Side 5
Þo'ra Vigfúsdóttir
ófriðsömum orðum. Á þeim átakatímum um þjóðfélagsmál hérlendis
sem einkenndu sambúðarár þeirra Þóru framan af voru mörg ófriðsöm
orð mælt og rituð, en Þóra var manni sínum sú sóley er varði hann öllu
grandi.
I gömlum ævintýrum er frá því sagt að tröll hafi þann leik uppi að
kasta milli sín fjöreggi sínu, og þau eru e. t. v. válegust tímanna tákn að
sjá þessi gömlu ævintýr verða að veruleik fyrir augum okkar. I formáls-
orðum að ljóðabókinni „Svo frjáls vertu móðir“, sem út kom á 10 ára
afmæli lýðveldisins talar Kristinn um þau örlög þjóðar er verði ofraun að
skýra nema leitað sé á vit gamalla ævintýra. Honum er myrkt fyrir
sjónum, en sú er löngum raun þeirra er eiga sér dýra drauma, helgar sýnir,
að sjá þær fótum troðnar.
En hvaðan kom þessu fólki eldmóður hugsjóna og alþjóðahyggju,
hinn forni draumur um bræðralag manna íklæddur nýjum búningi? E. t. v.
frá þeim frelsisanda er gagntók þjóð okkar af ritum Fjölnismanna, og
e. t. v. átti hann sér enn dýpri rætur. Að baki öllum vonum okkar manna
um frelsi og jafnrétti blundar hin forna djúpa þrá eftir glataðri paradís —
allar þjóðfélagshræringar eru endurómur frá þeim trúarlega bakgrunni,
þar sem „lífsvonin eina var samtvinnuð krossinum rauðum“.
I bernsku hafði Þóra lært gamalt vers — bænarmál er speglar hugskot
þess fólks sem er handan allra hugsjóna og drauma er fá ræst hérna megin
grafar, og þegar fór að kvelda og húma að, varð henni þetta gamla vers æ
hugleiknara og þess bænarmál.
Maríusonur mér er kalt,
mjöllina af skjánum taktu,
yfir mér einnig vaktu.
Lífið bæði og lánið er valt,
ljós og skuggi vega salt,
við lágan sess á ljóstýrunni haltu.
Þóra Sigurborg Vigfúsdóttir eins og hún hét fullu nafni var fædd á
Vatnsenda við Reykjavík 28. nóvember 1894 og var því á 86. aldursári
þegar hún lést 28. fyrra mánaðar. Foreldrar hennar voru Vigfús Olafsson
og Sólborg Hansdóttir — fátæk að öðru en börnum, — Þóra var yngst
131