Tímarit Máls og menningar - 01.07.1980, Page 89
,,Von um virðingu fyrir sjálfum mér“
upp tildrög þcss og segir: „En svo eru nú líka til önnur ör, sem ekki sjást með
berum augum, og eru þau að vísu ekki á höndunum" (446). En stundum er
hann svo yfirtak þurr á manninn andspænis þungum raunum, að lesanda fínnst
með ólíkindum:
„Móðir mín andaðist þá um veturinn, 12. febrúar 1910, 62 ára gömul. Hún
dó úr krabba.
Faðir minn andaðist um vorið, 24. maí, 63 ára gamall. Hann dó úr brjóstveiki.
Foreldrar mínir voru jarðaðir að Grenivík. Ekki gat ég verið við útför þeirra.
30. júní um sumarið 1910 hrökk Valdimar bróðir minn út af hákarlaskipi við
Oddeyrartanga. Hann var 24 ára garnall." (426).
Það var kannski ekki nema von að Þórbergi fyndist nóg um þá sparsemi sem
hér hefur verið lýst með dæmum. En hann segir í frægum ritdómi sínum: „Allt
tíðindalaust í ríki sálarinnar. Engir innri lífsháskar, engar nýjar hugsanir, engin
heilabrot um lífsgátuna .. . Allt í lausgopalegu ágripsformi . . (167).
En nú bregður svo við, ab \ skáldsögunum er Theódór einatt allt annar maður.
Hann, eða persónur hans, verða miklu mælskari um tilfinningamál, um „innri
lífsháska“ en hann leyfir sér að vera sjálfur í ábyrgri ævisögu. Það er að vísu
nokkur tvíveðrungur í þessum persónum. Ungu mennirnir í Grímu og Utlögum
hafa báðir misst kærustur sínar — önnur lést með voveiflegum hætti, hin brást.
En þeir hafa lesið um Skarphéðin og Þormóð Kolbrúnarskáld og þeir vita að
menn eiga að bera harm sinn í hljóði „bregða sér hvorki við sár né bana“
(Utlagar, 158). Ingveldur heitir fullorðin ráðskona í skáldsögunni Grímu, sem
rennir hýru auga til miklu yngri manns, en hún treystir honum til þess „að þú
hafir ekki orð á þessu við nokkurn mann, þó að mér yrði það á að vera svo djörf
að láta þér tilfinningar mínar í ljós“ (52). Kristín elskar Rafn skipstjóra
(skáldsagan Utlagar) en ætlar samt að giftast ungum presti og byltir sér í
hugarvíli í sæng sinni: „Ást! Ást! Það voru andvörp, sem liðu frá brjósti hennar
út í næturmyrkrið, og henni ofbauð hvað hún, tuttugu og tveggja ára gömul
stúlkan, gat verið barnaleg að geta ekki dulið þetta“ (55).
En þótt það sé samkomulag með höfundi og persónum hans að tilfinningar
skuli berja niður með karlmennsku, þá fer einatt svo að þær geta „ekki dulið
þetta“. I ævisögunni er Theódór Friðriksson mjög við það heygarðshornið að
segja sem fæst, en í skáldsögunum gefur hann sig á vald vímu tilfinninganna,
brýtur ok hefðarinnar. En því miður: þegar hann hefur gert þetta stendur hann
á hálum ís. í stað þess að njóta góðs af því frelsi sem uppmálun lífsháskans og
ástríðnanna gæti boðið upp á, hafnar hann i nýjum þrældómi á galeiðu eld-
húsrómansins, í klisjusmiðju tilfinningalífsins. Hann skortir alltof oft þá bók-
211