Tímarit Máls og menningar - 01.07.1980, Blaðsíða 99
,,Von um virðingu fyrir sjálfum mer“
við kapp og dugnað vekur nú fyrst og fremst viðbjóð. Höfundur fer ekki í
feluleik með pláss og þannig lýsir hann Siglufirði:
„Hann horfði yfir þessa eyri, þar sem allir voru trylltir í vinnu, þetta drullu-
og forarstykki, þar sem öllu ægði saman, síldinni, þorskinum og grútnum, og
svo þessi leiðinlega gufa, sem eitraði loftið út frá þessum stóru bræðsluofnum.
Ofan á þessum óþverra flutu sálarskörnin eins og lýsi ofan á tunnu, og þarna
hafði húsunum verið slett niður í tryllingi hingað og þangað eins og einhver
reiður djöfull hefði hrækt þeim út úr sér í bláköldu skeytingarleysi. Það brutust
um í honum öfl eins og í jörðinni, sem langar til að gjósa“ (Mistur, 57).
Þetta er allt annar tónn en i ævisögunni, þar er höfundur forvitinn gestur á
Siglufirði, þótt honum standi stuggur af „sollinum“ eins og sveitamanni var
eðlilegt. Hann er óviss um það hvað halda skal: „Hjá mér vöknuðu alls konar
spurningar um tilgang og gildi þess sem fyrir augun bar, og voru þau mörg
ævintýrin sem ég vissi um í þessari iðandi mannkös" (7 verum, 366).
Ævisagan á nokkrar stórkarlalegar lýsingar á vertíðarati á Suðurnesjum og í
Vestmannaeyjum, en það er allt mjög hóflegt í samanburði við lýsingu Misturs
á páskahrotu í Eyjum:
„Þessi skelfilegi afli ætlaði alveg að gera út af við menn bæði á sjó og l.indi, og
alltaf voru aðgerðarmenn að fatlast frá. Það hafði liðið yfir menn i flæðarmálinu
undir pöllunum þar sem þeir gengu örna sinna og margir fengu blóðnasir og
höfuðþyngsli af þreytu og vökum. Óeðlileg æsing fór í taugarnar á sumum
ungum og hraustum mönnum. Þeir æddu áfram í nokkurs konar hamförum og
tryllingi og rugluðu óráðskennda drauma við kvenfólk . ..“ (150).
En nú er að athuga það, að það er Dagbjartur söguhetja sem fellir þá hörðu
dóma sem hér birtast um mannlíf í bjargræðisplássum landsins. Og Dagbjartur
er eins konar óskmynd Theódórs af sjálfum sér.
Sagan hefst á kappræðu milli tveggja félaga, tveggja viðhorfa. Borgþór og
Dagbjartur koma til Eyja saman, dugnaðarforkar báðir tveir. Borgþór hrífst
fyrirvaralaust af því tryllta lífi sem lifað er í verinu með ofsavinnu, fylliríi,
slagsmálum og kvennafari, og byrjar strax að kynna sér alla möguleika á
að græða á ástandinu. Dagbjartur er hins vegar lítið hrifinn, honum blöskrar
mjög ástandið og þá ekki síst menningarleysið. Aðventistar hræða fólkið,
bókasafnið grotnar niður, kvenfélagið heldur uppi sjónleikjum stöku sinnum en
það eru „örgustu skrípaleikir og hugsjónalaust rusl“ og æskulýðsfélögin eru vita
máttlaus, samkomur þeirra „ekkert annað en dans og fótaspark, eintómt hopp
og hí út i loftið" (Lokadagur, 75). Dagbjartur vill „bæta hugsunarháttinn í
221