Tímarit Máls og menningar - 01.02.1983, Side 94
Tímarit Máls og menningar
En ég geri ráð fyrir þessu vegna þess, að hitt leiðir að mínum dómi í
ógöngur.
Páll: Já, já, ég veit það.
Brynj.: Já, þú veist það, svo þetta er nú held ég skýrt hjá okkur, er
það ekki? Við þurfum ekki að hafa fleiri orð um það.
Þá kem ég að aðalatriðinu, einmitt því sem þú varst að tala um í
upphafi. I síðari hlutanum tekur þú dæmi af tveimur mönnum. Annar er
hluthyggjumaður, og reynir að skýra vitundina út frá hlutveruleikanum.
Hinn er hughyggjumaður, sem reynir að skýra hlutveruleikann út frá
vitundinni. Og báðir hafa ratað í villu sem þeir eiga enga leið út úr. Þú
setur mig í hlutverk hluthyggjumannsins og Sartre í hlutverk hughyggju-
mannsins. Þú lýsir þessum andstæðum og til hvers þær leiða, með mikilli
prýði. Þetta er skemmtilegur kafli, sem ber vitni bæði um góðan kennara
og góðan rithöfund. En það er einn galli, finnst mér — ég er ekki rétti
maðurinn í hlutverkið. Eg hef alls ekki þær skoðanir, sem þú lætur
hluthyggjumann þinn halda fram. Þú segir, að eins og Sartre rjúfi ég
afstæði vitundar og hlutveruleika og líti á hlutveruleikann sem algildan.
Við þetta vil ég alls ekki kannast. I þessu sambandi notar þú hugtakið
„hlutveruleiki“ í öðrum skilningi en ég, eins og þú segir sjálfur í
athugasemd. Eigi að síður gerir þú skilmerkilega grein fyrir skoðunum
mínum í fyrra hluta ritgerðarinnar. Þar lýsir þú ágætlega skilningi
mínum á hlutveruleikahugtakinu, og segir t.d. að ég ráðist harkalega á
þær kenningar sem gera sjálfið að afurð hlutlægra ferla. Þetta er í fullu
samræmi við það sem ég hef sjálfur verið að bera mig að gera grein fyrir.
Þið munið, að fyrr í þessu spjalli okkar sagði ég, að hlutveruleikinn,
óháð allri vitund um hann, sé sértak og ekkert annað en sértak. Og ef
maður gerir hann að einhverju meira, þá verður ekkert vit í hugtakinu.
Þá vil ég enn einu sinni vísa til 11. kaflans í A mörkum mannlegrar
þekkingar. Þar segi ég um hlutveruleikahugtakið: „Hvernig er unnt að
tala um veruleika, sem ekki getur birst í neinu? Slíkur veruleiki er m.ö.o.
neikvæði alls veruleika.“ Og síðar: „Hvers konar veruleiki er það, sem
engin vitandi vera getur nokkru sinni vitað eða gert sér nokkra hugmynd
um, vegna þess að sjálft inntak hans felst í því að vera handan allrar
vitundar“. Og niðurstaðan er sú, að „án einingar sjálfsveru og hlutveru í
merkingunni áorkun og andlag", sé enginn raunveruleiki. Að fella
sjálfsveruna inn í það hugtakakerfi, sem einungis getur tekið til hlutveru-
leikans, sé hinsvegar eins og að freista þess að bera sólskinið inn í
trogum. Þetta er skrifað fyrir u.þ.b. 20 árum.
84