Tímarit Máls og menningar - 01.02.1983, Side 106
Tímarit Máls og menningar
Ur sveit í borg
Þótt aldursmunur sé ekki mikill á konunum í sögunni eru þær þó
fulltrúar tveggja ólíkra heima í íslensku þjóðlífi aldarinnar. Sala kemur
til okkar úr veröld hins hefðbundna íslenska sveitalífs, en að baki
sögukonu erum við okkur meðvituð um nútímalíf borgarinnar. Þessir
heimar eru, eins og svo margt í bókinni, miklu fremur gefnir í skyn en að
fjallað sé beinlínis um þá. Samt fáum við ótrúlega skýra mynd af lífi Sölu
og ein efnisgrein virðist nægja tii að gefa sterkar vísbendingar um
umhverfi sögukonu (9—10). Og dauði Salóme veldur því meðal annars
að sögukona „hugsaði um firringu borgarlífsins, þéttbýlisfólksins.“ (11)
Jakobína er ef til vill sá höfundur íslenskur sem fjallað hefur af mestri
tilfinningu um þær stórgerðu þjóðfélagsbreytingar eftirstríðsáranna er
leiddu til þessarar þéttbýlismyndunar, borgarlífs nútímans. En hún átti
jafnframt lengi erfitt með að horfast í augu við þær, ganga út frá þeim
sem staðreyndum í skrifum sínum. I ritdómi um Snöruna í Skírni 1969
farast Svövu Jakobsdóttur svo orð:
Nálægð og samþjöppun efnis eru kostir ádeilunnar. Hinu er ekki að neita, að
viðhorf bókarinnar kann að virðast einhæft. Það er kunnugt úr fyrri bókum
Jakobínu, að hún harmar hnignun bændaþjóðfélagsins og telur sveitalíf
sannastan lífshátt íslenskan. í Snörunni er þessi sannfæring hennar enn
sterk . . . Þeir fjölmörgu íslendingar, sem eiga uppruna sinn - og vandamál —
í borg, hljóta að líta á þessa lausn sem óraunhæft afturhvarf og óæskilegt.
(253)
Með Lifandi vatninu — — — (1974) verða nokkur þáttaskil í afstöðu
Jakobínu. Pétur verkamaður reynir að flýja firringu borgarlífsins á vit
bernskustöðva sinna, en í sögulok veit hann að ekki verður aftur snúið:
„Eg get ekki horfið aftur til upphafs míns, annar var þar.“ (203). En með
þessu er þó ekki horfst í augu við borgarsamfélagið, sem virðist vélrænt
og vonlaust. Og sterkasta kennd bókarinnar er vafalítið eins konar
bernskuvitund um sveitina, náttúruna og lifandi tengsl við landið, sett
fram á auðugu og oft hugljúfu máli:
Ain kemur streymandi til móts við augu lítils drengs, streymir silfurglitrandi
inn í augu hans til að hugfestast honum og streyma í vitund hans hverja stund
síðan. Drengur stendur á árbakkanum og horfir á bjartan flauminn. Um-
hverfis hann er grænt gras, yfir honum bládjúpur himinn með hvítum skýjum
á stöku stað, allt kyrrt og hljótt, nema vatnsfallið hvíslar í sífellu um leið og
það rennur hjá. (54)
96