Tímarit Máls og menningar - 01.04.1989, Page 30
Tímarit Máls og menningar
sprettinum óttalaust“ eins og Sverrir Kristjánsson komst eitt sinn að orði
(TMM 1969, 2). Og þetta var af því að Þórbergur var óviðjafnanleg og dásam-
leg blanda vísindamannns og sprelligosa.
Nú er stíll Þórbergs síður en svo hið eina sem gerir hann merkan. Söguefni
hans eru ekki síður athygli verð. Þórbergur lifði tímaskeið þegar mikið gekk á í
íslensku þjóðfélagi. A æskuárum hans bólgnuðu þarfir landsmanna skyndilega
út. Allir sáu að nú var dögun. Nú þurfti vísindi, togara, vökulög og taxta, og
það þurfti ósviknar bókmenntir. Síminn kom og bíllinn og svo var það út-
varpið. Og það kom kreppa. Nútíminn barði að dyrum.
Það var ekki lítil þraut að glíma við þennan heim og vera til í honum. Það
var ekki síður þraut að finna hinum nýja tíma mál við hæfi. Þar kemur Þór-
bergur til skjalanna.
Þórbergur flyst úr sveit í borg, fer úr sveitastörfum til sjós, þaðan í skóla;
hann reynir fátæktina á sjálfum sér, hann sér ljós sannleika og réttlætis og af-
ræður að birta það öðrum undanbragðalaust og dregst þannig inn í stjórnmála-
baráttu samtímans. Og andlegur farareyrir hans felst í tíu þúsund vísum sem
hann lærði heima á Hala, í Islendingasögum, Jóni Indíafara, Vídalínspostillu,
Alþýðubók séra Þórarins og ómenguðu brjóstviti greindra Skaftfellinga. Allt
sem ber fyrir augu hans kryfur hann kalt og klárt. í næmri og mótsagnakenndri
sál hans mætast íslensk arfleifð og ljós úr austri; hugur hans er fullur af ótta við
allt frá hrökkálum til illhvela, hann óttast um líf sitt en um leið er hann öðrum
mönnum djarfari þegar hann segir hinu sköllótta afturhaldi höfuðstaðarins til
syndanna.
Allt þetta gerir huga Þórbergs og verk að kraumandi potti.
Þeim yrkisefnum sem slíkir tímar buðu uppá hæfði nýr stíll, stíll sem þá var
ekki til á íslensku. Þá kom Bréf til Láru eins og þruma úr heiðbláum himni. 17.
desember árið 1924 heyrði lognmolla Jíinars Kvarans og Jóns Trausta í einu
vetfangi fortíðinni til. Spilin voru stokkuð að nýju.
Fyrir hundrað árum, er Þórbergur Þórðarson fæddist, gat enginn vitað að sá
hvítvoðungur myndi vinna tungu sinni og menningu slíkt gagn að fáum verður
þar til jafnað fyrr eða síðar. Þórbergur sameinaði í greip sinni þræði í íslenskri
menningu sem ekki máttu týnast, hann gerði úr þeim vað sem ekki mun slitna í
bráð. Og hann verður haldreipi okkar.
Ræða flutt við afhendingu Stílverðlauna Þórbergs Þórðarssonar,
12. mars 1989.
156