Tímarit Máls og menningar - 01.04.1989, Blaðsíða 117
Bréfin hennar Fríðu
Reykjavík 5. jan. 1980
Inga Þóra mín.
Þakka þér fyrir línurnar sem þú skrifaðir mér.
Fyrst skal ég segja þér hvernig ég er orðin. Auk þess sem bandið á ritvélinni
er orðið svo dauft að varla verður lesið það sem það skrifar á pappírinn, er ég
nú að verða vita heyrnarlaus, sjónlaus líka, minnislaus líka, farlama að heita
má, ergileg, kvíðafull, tortryggin, og mest af öllu leiðist mér að vera búin að
missa hárið svo af því er nú ekkert eftir. Herra G.B. (sem burt er farinn) er
hinsvegar spældastur að því sem hann kallar vitleysuna og ruglið í fólkinu,
kemur inn yfirkominn af þessari hremmingu, sem sverfur hann dýpst inn í
sálarkviku, og enginn huggar hann.
Ekki veit ég samt nema svartur grunnur fari vel í meistaraverkinu okkar,
sem á að halda uppi nafni okkar um ókomnar aldir. Hertogafrúin, móðir
þín, er búin að setja upp hjá sér krosssaumaðan stól fylltan upp með svörtu.
Það fer ekki illa.
Annars er eftir að sauma sitt af hverju innan rammans, fleiri ljótar sjó-
skepnur vildu fá að komast að, en þá var mér farið að förla og ég nennti ekki
að sinna þeim. Ég held hálfpartinn að brúni liturinn í rammanum sé svo
dökkur að varla beri lit af lit (honum og svörtu). Líklega væri ráð að spyrja
herra G.B. ef hann kemur lifandi heim einhvern tíma, því hann hefur afskap-
lega gott vit á litum. Gætuð þið Sölvi ekki komið í heimsókn með teppið,
eða látið pabba Sölva passa hann á meðan ef hann kann það.
Með innilegri ósk um gott og viðburðaríkt ár. A árinu sem var að líða var
tólf harðstjórum sagt að fara til fjandans og það gerðu þeir og koma aldrei
aftur og nú óska ég þess að tólf sinnum tólf verði reknir á þessu ári og helst
hengdir. Og segðu svo að ég hafi ljótan hugsunarhátt.
Þín einlæg
Málfríður Einarsdóttir
Mörg bréf og skemmtileg hef ég fengið frá Málfríði, sum hafa birst í Rásir
dægranna og verður því ekki vikið að þeim hér. 1975 sendir hún stutt bréf:
R. kl. 0,12, 11. des. 1975
Kæra Inga Þóra.
Bréf þetta (sem aldrei skyldi skrifað hafa verið) er orðið svo langt að lífeyrir
minn (ellilífeyrir og eftirlaun) mundi ekki nægja fyrir frímerkjum ef ég sendi
það allt í einu, enda mundirðu þá bæði draga ýsur og fara á fjöll. Já, þó að
allar tekjur mínar og eigur að auki (milljónir) væru lagðar fram, mundi ég
komast í frímerkjaskuldir. Þessvegna sendi ég aðeins það sem nægja mun
fyrir einföldu bréfi (þ.e. bréfi með einfeldningslegu tali), því það mundi
miklu léttara í vigt en bréf með spaklegu tali í miklum málsviðjum, myrkri
málsemd. Svo bið ég þig að brenna þessu ekki alveg strax, nema þér þyki að
243