Tímarit Máls og menningar - 01.09.1994, Page 20
þetta bæri ekki að taka svo að þau orð sem ekki væru þannig auðkennd væru
horfin úr lifandi íslensku máli. Menn læsu ekki formála að orðabókum, sagði
hann.(IS/98)
Hvað neyðarlegust er atlagan að dönskunni og Danskinum í atriði sem
kallast „Hjá Plógi". Hér fáum við sýnishorn af tvíræða oflofinu sem er
dæmigert stílbragð fyrir bókmenntir af þessu tagi. Þegar við heyrum sagt
um Dani: „Yðar hágáfuðu landar eru sú hin málfræðislegasta þjóð sem til er
í veröldinni“ (17), þurfum við ekki lengi að velkjast í vafa um hvaða skilning
beri að leggja í lofsyrðin. Eins og svo víða má sjá samsvörun á milli Gandreið-
arinnar og ritgerðar Benedikts um Friðþjófssögu. Af ritgerðinni má ráða að
Benedikt fmnst „óspillt" tungan veita íslendingum andlega yfirburði meðal
skandinavískra þjóða, hún geri þeim einum — hugsanlega þó einnig Norð-
mönnum — kleift að höndla hinn norræna anda sem var svo mjög hampað
af fylgjendum skandínavismans. Eða „hver getur borið á móti því,“ spyr
Benedikt, „nema þeir, sem ekki hirða um neinn sannleik, að andinn fer, þegar
málið spillist?" Og það þarf ekki að spyrja að því að danskan er að mati
höfundarins gjörspillt mál, hún „hefur misst hneigingaraflið, og „stendur nú
sem stofnað tré stirð og dauð á jörðunne“ (R.III/118). Það er þessi vægðar-
lausi dómur sem skín í gegnum fleðulæti Ögmundar í garð Dana. Vísunin í
Bíleams Ösnu ber vott um andríki Benedikts og sýnir að hann er fundvís á
pillurnar, eða hvað er andlausara en „asninn“ í víðtækustu merkingu þess
orðs?
Ögmundr „Herra Plógr! Afkvæmi Plógs svarta! Þér eruð verndaðir
af guðlegri hendi, og ég hef nú verið vitni til þess kraftaverks, sem
ég aldrei hefði trúað, að verða mundi á þessari skrúfstykkja-jörð
. . . en þetta kraftaverk, sem ég ætlaði að tala um, það er sú hin
forundrunarlega repetitio af Bíleams ösnu, sem talaði það, sem
hún sjálf ekki skildi, ogeins hafið þér nú líka talað íslenzku... (17)
Já, það þurfti ekkert minna en kraftaverk til að Dani talaði íslensku, því að
eins og stendur í fyrrnefndri grein, „[þeir] geta aldrei lært eitt íslenzkt orð“
(R.III/119).
Fyrirmyndin að Plógi þeim sem hér fær svo háðulega útreið var einn
ötulasti talsmaður skandínavismans Parmo Carl Ploug sem að auki hafði
unnið sér það til „ófrægðar“ að vera ritstjóri Fædrelandet, blaðsins sem
hafnaði svargrein Jóns Sigurðssonar við nafnlausu skammarbréfi Gísla
Brynjúlfssonar.
Upphaf þáttarins „Hjá Plógi“ á sér augljósa fyrirmynd í „samræðunum á
þröskuldinum“ sem svo eru kallaðar. Þetta bókmenntaform á rætur að rekja
18
TMM 1994:3