Tímarit Máls og menningar - 01.09.1994, Page 55
Bíllinn hafði stoppað við rautt ljós á götuvita sem stóð við hlið
drullupollsins; hann var fullur af ungmennum sem æptu og hlógu og
grettu sig niður á Indriða. Engilfríð, ljóshærð, gúmjórtrandi stúlka í
aftursætinu tók fyrir fíngert nefið á sér og benti á Indriða með ýktum
viðbjóðssvip, en bílstjórinn, horaður snoðkollur með nagla í nefínu,
skrúfaði niður hliðarrúðuna og öskraði heiftugur: „Róni, drullastu á
hæli! Þú skítur út göturnar mínar!“
Síðan skaut hann út hendinni og fleygði hálfétnu Prinspólói út um
gluggann, í höfuð Indriða svo small í, og æpti glaðhlakkalega: „Það
verður að fóðra endurnar, krakkar! Munið eftir smáfuglunum!“
„Djöflarnir!“ hugsaði Indriði Haraldsson snillingur ráðþrota og
brölti stirðlega á fætur eins og glamrandi vélmenni. „Djöflarnir eru
komnir! Þeir hafa líkamnast og henda í mig skít!“
Máttvana af kulda og gremju og örvæntingu þreifaði hann eftir
súkkulaðinu í gruggugum pollinum og hóf það á loft til að senda það
til baka, æpandi kuldadofnum vörum: „Djöflar! Vesælu djöflarnir
ykkar!“ En þá var ljósið orðið grænt og djöflarnir horfnir inn á
Kringlumýrarbraut, en skildu eftir reyk og fýlu, drunur og ískrandi
hæðnishlátra í kveðjuskyni.
Indriði Haraldsson snillingur stóð eftir grátandi í ísköldu heim-
skautaregninu og kreppti loppnar hendurnar í vanmætti sínum. Hann
tók eftir að ökumenn gáfu honum auga og sumir hægðu ferðina, svo
hann drattaðist af stað upp úr pollinum eins og fæturnir báru hann
— og nú vissi hann hvert þeir ætluðu með hann: Burt frá köldum,
forvitnum augum, burt frá öllu heila klabbinu, burt af leiksviðinu
fyrir fullt og allt.
Nokkrum ísköldum, rennblautum mínútum síðar var hann slopp-
inn til hálfs úr miskunnarlausum mannheimum og haltraði milli
pollanna á gamla malarveginum sem lá út á Laugarnesið — burt af
leiksviðinu.
Hann staulaðist framhjá safni Sigurjóns Ólafssonar, þar sem hann
hafði eitt sinn staðið á raunverulegu leiksviði og lesið upp frumsam-
inn skáldskap, prúðbúinn snillingur, fyrir fullan sal af listelsku merk-
isfólki; ráðherra hafði meira að segja komið til hans eftir lesturinn og
þakkað honum innilega fyrir með handabandi, og skrjáfað hafði í
silkiklæðum og hringlað í gullfestum á snjóhvítum svanshálsum
kvennanna . . . Það var skrítið að dynjandi lófaklappið hljómaði í
TMM 1994:3
53