Tímarit Máls og menningar - 01.09.1994, Page 60
Bjarni Bjarnason
Hið einstaka
Daginn sem hún varð kynþroska leit hún í spegil. Þá sá hún að hún
hlaut að vera eitthvað sérstök. Ekki afþví hún var svo falleg, heldur
vegna þess að hún hafði enga spegilmynd.
°Þetta er einkennilegt, ég hef alltaf séð mig í spegli fram til þessa.°
Hún reyndi annan spegil en allt kom fyrir ekki. Hún leit niður á
hendur sínar, líkamann, jú hún var þarna öll, jafn sýnileg og hún hafði
alltaf verið. Hvað hafði gerst?
°Kannski hef ég dáið á augnablikinu sem ég varð kynþroska og er
orðin andi.°
Hún fór að leita eigin líks en það var hvergi að finna. Og spegil-
myndin lét ekki á sér kræla, sama hvernig hún reyndi að koma
speglinum að óvörum.
°Ég hlýt að vera orðin ósýnileg öllum öðrum en sjálfri mér.°
Hún ákvað að læðast inn í eldhús þar sem faðir hennar var að lesa
blað og fá staðfest að hún væri orðin gegnsæ. En hún hafði ekki tiplað
lengi á tánum í kringum hann þegar hann sagði:
„Hvað viltu Alda mín, sérðu ekki að ég er að reyna að lesa blaðið?“
Þá vissi hún það. En gat hún snert hann? Skjálfradda sagði hún:
„Fyrirgefðu pabbi minn,“ hallaði sér að honum og kyssti hann á
kinnina. Þegar hún fann snertinguna fékk hún tár í augun og varð
vandræðaleg. Hann lagði blaðið frá sér, tók hana í kjöltu sér, strauk
henni um hvarmana og sagði:
„Hvað er að, prinsessan mín?“
Þegar hún hafði skælt nokkra stund sagði hún ekkablandinni
röddu:
„Ég leit í spegilinn og ...“
„Og hvað?“ spurði hann.
„Og ég sá ...“
„Hvað sástu?“
58
TMM 1994:3