Tímarit Máls og menningar - 01.09.1994, Page 61
Það rann upp fyrir henni hvað þetta var hjákátlegt. Hann fengi
vafalaust áhyggjur af andlegri heilsu hennar ef hún segði sem var. En
hún varð að létta af hjarta sínu, annars myndi hún missa vitið. Hún
herti sig upp og reyndi aftur:
„Ég leit í spegilinn og sá að ég ...“
Hún þagnaði. Nú fann hún að hún gat ekki sagt frá þessu. Og þá
var hún svo óskaplega ein í heiminum, og jafnvel kærleikur föður
hennar sem hún elskaði út yfir gröf og dauða, umvafði hana eins og
fangelsi. Hún fór að hágráta. Nú fyrst varð faðir hennar verulega
áhyggjufullur og spurði hvað eftir annað:
„Hvað sástu, hvað sástu í speglinum?“ eins og framtíð þeirra ylti á
því. Ef hún segði honum það núna myndi hann sannfærast um sálsýki
hennar. Hún varð að róa hann og svaraði lágt:
„Ég sá hvað ég er ófríð.“
Faðir hennar leit undrandi á hana. Síðan fór hann að skellihlæja.
Hláturinn var svo innilegur að hún smitaðist af honum þótt henni
væri alls ekki hlátur í huga. Eftir drjúga stund gat faðir hennar loks
stunið upp:
„Þú, ljót...“
Síðan hló hann eins og vitlaus maður og hún gat ekki annað en
hlegið líka þótt hana langaði helst til að gráta. Eftir langa mæðu gat
hann loks hamið hláturinn. Hann horfði djúpt í augu hennar og sagði:
„Þú ert fallegasta stúlka í heimi, Alda mín.“ Og eins og allir feður
sem segja þetta einhvern tíma við dætur sínar meinti hann það af öllu
hjarta. En nú þegar hann virti hana fyrir sér rann upp fyrir honum að
hann hefði líklega á réttu að standa. Skelfdur horfði hann á hana eitt
augnablik, sagði síðan:
„Jæja, nú skaltu leyfa mér að lesa blaðið.“
Hún kyssti hann á ennið, stóð upp og gekk inn í herbergið sitt. Hún
leit ekki í spegilinn heldur lagðist í rúmið.
°Mikið er þetta einkennilegt. Ég hef ábyggilega bara ímyndað mér
þetta allt saman.°
Hún ákvað að loka augunum, fikra sig blindandi að stólnum við
snyrtiborðið, opna síðan augun og þá myndi hún örugglega líta
spegilmynd sína aftur. Þegar hún hafði setið drjúga stund framan við
spegilinn og beðið þess að hjartað róaðist í brjósti hennar, opnaði hún
augun ofurhægt. Hún sá herbergið greinilega en sjálfa sig hvergi. Hana
TMM 1994:3
59