Tímarit Máls og menningar - 01.09.1994, Page 86
ari. Hann hefði þó mátt reyna að flétta hinum pólitíska þætti frekar inn í
samband Sölku og Arnalds.
Myndinni til lofs má benda á tvö atriði sem taka á pólitískum veruleika
bókarinnar á frumlegan og vel upphugsaðan hátt. Fyrra atriðið er frá
fundinum í skólahúsinu þar sem Arnaldur kynnir fyrir íbúum þorpsins
hugmyndir Marx um nýja og betri tíma. Upptendraður af orðum sínum
stendur hann baðaður í ljósi peru sem hangir fyrir ofan hann. Við erum strax
minnt á margar fyrri senur þar sem kaffeinninn á Hjálpræðishernum stóð í
sams konar ljósi og boðaði frelsun í gegnum Jesú Krist. Hliðstæða þessara
atriða bendir til skyldleika milli marxisma og kristni. Báðar stefnur fjötra
sálir og ímyndunarafl manna á svipaðan máta. Mattsson beitir einnig djúp-
um fókus á athyglisverðan máta. Áhorfandinn fylgist með Arnaldi í spegli á
veggnum á meðan myndavélin beinist að fokvondum verkamanni. Kvik-
mynd miðlar þannig miklu efni á stuttum tíma á allt annan hátt en unnt er
í bókmenntunum.
Hin senan sem lof á skilið fyrir frumleika lýsir því þegar Arnaldur skipar
verkfallsmönnum að hella eldsneyti út í höfnina með slæmum afleiðingum
fyrir fuglalífið á staðnum. Með dauða fugla allt í kringum sig bjóða Salka og
Arnaldur hvort öðru birginn í áhrifamikilli senu. Þrátt fyrir að þennan
atburð sé ekki að finna í skáldsögunni sýnir hann glögglega að öfgafullar
athafnir framdar í þágu byltingar geta verið tilgangslausar og óafsakanlegar.
Laxness gerir þetta að umræðuefni í 12. kafla Fuglsins íjjörunnilpegar hann
vísar til ummæla Leníns vegna hungursneyðar í Volguhéruðum. I kvikmynd-
un verks má því oft bæta inn frumsömdu efni án þess að tapa upprunalegum
anda.
Samband Sölku og Arnalds vegur þungt í síðari hluta sögunnar. Arnaldur
snýr aftur heim í þorpið effir tíu ára fjarvist til þess að stofna verkalýðsfélag.
Þau deila ákaft á fýrsta fundinum, þar sem hún kallar tal hans draumóra og
hann ásakar hana fyrir afturhaldssemi. En samband þeirra fer að þróast eftir
að hún verður róttækari í skoðunum og heyrir sannleikann um hringinn.
Þau eru bæði ástfangin. Arnaldur opnar sig fyrir Sölku og viðurkennir að
hann sé fullur af efa ólíkt því sem virðist á ytra borði. Tilfinningar Sölku til
Arnalds vaxa jafnt og þétt, en hún er óreynd í kynferðismálum og sálarlega
heft. Henni er því með öllu ókleift að fullkomna sambandið:
Hitt gat aftur talist vafamál hvort hún kynni að kyssa, því hún
opnaði aðeins munn sinn og lokaði augunum ... En á einu stigi í
atlotunum var hún gripin felmtran ... Þá gat hún altíeinu brotist
úr faðmi hans án þess hún vissi hvað hún gerði, og fól andlitið í
gaupnum sér, en um líkama hennar fór krampakendur skjálfti,
kanski grét hún (Salka Valka 414).
84
TMM 1994:3