Tímarit Máls og menningar - 01.09.1994, Qupperneq 102
kúrar og iðraþvottur. Tuttugu feitar hjúkrunarkonur tóku menn í
karphúsið. Þær voru allar þýskar. Þar var magaskolað dag og nótt með
ógrynnum af koladufti, slangan alveg geipilega sver og stíf. Ég held að
hún hafi alla vega verið á við karlmannsþumal að gildleika. Og bévít-
ans ristilhreinsunin með fleiri fleiri dunkum af óþverra. Olía held ég
það hafi heitið. Olíuinnhelling. Sumir öskruðu, þetta var svo sárt, en
allt var það í þágu heilsunnar svo að hjúkrunarkonurnar öskruðu bara
enn hærra og sögðu okkur að þegja. Alveg ægilegt.“
„Nokkurn tíma sprautur?“
„Ja, maður Guðs og lifandi, vítamínsprauturnar! Þá var það eitt!
Þær fylgdu í kjölfarið. Ég hef aldrei séð þvílíkar nálar. Þær voru eins
og blýantar! Og þær voru svo bitlausar að undrum sætti. Þær ætluðu
aldrei að komast gegnum skinnið. Og stórar sprautur fullar af gulglær-
um vítamínvökva. Ekki minni en beljusprautur! Lærin og þjóin hreint
og beint sprungu í sundur. Uss. Þú hefðir bara átt að reyna þetta.“
Álfkonan kyngdi og ók sér, lítil og mjó. „Já. Hérna, nú er varla hægt
að trúa því að nokkur maður skyldi láta bjóða sér þetta?“
„Þér eruð hér sjálfViljugur!“ sagði doktor Jósep Jóseps alltaf. „Ef þér
fylgið mér öðlist þér þá bestu heilsu sem völ er á. Hún yrði ekki betri
þótt þér kæmust í himnaríki! (Og hér hnykkti hann alltaf höfðinu,
þetta var brandari hjá honum. Menn tóku honum misjafnlega).
En ég get bara sagt þér það: Hann doktor Jósep Jóseps bjó yfir
þvílíkum sannfæringarkraffi með öll þessi vísindi og vængi á bakinu;
hann hefði fengið skrattann til að skeiða ef hann hefði komist á bak.
Það var ekki hægt annað en fýlgja honum.“
„Og þetta er þá sláturkeppurinn,“ sagði hún og benti upp á hillu.
„Já. Ég lét steypa hann inn í glæra plastkvoðu eftir að yfirhalning-
unni lauk. Ég hef hann fyrir minjagrip um liðinn tíma.“
„Það var og,“ sagði álfdísin. „En víkjum að betri helmingnum. Tókst
þér ekki, eða reyndirðu ekki, að fá konuna með í meðferðina?“
„Æ, hún blessunin, nei hún gaf aldrei neitt fyrir þetta allt. Kallaði
það meinlætaheilsu. Sat bara og prjónaði og glotti að listum doktors-
ins. Það var synd. Ég fyrirgaf henni það aldrei. Enda dó hún sextug.
Það var þá sem mér fannst að dofnaði hljómur þessarar klukku þarna
á veggnum. Við fengum hana í brúðargjöf.“
Gamli maðurinn benti á klukkuna.
„En ekki tjóaði víst að æðrast. Hún vildi ekki læra rétt og syndlaust
100 TMM 1994:3