Tímarit Máls og menningar - 01.12.1994, Side 100
jafnast á við Kafka, stundum á við Proust, en á náðarstundum hafi hann
kannað dýpi sem hvorugur þeirra náði. Hvað sem dýptarmælingum líður,
verður fljótlega ljóst við lestur Schulz að nú er hafin Nautilusarsigling um
undirdjúp mannssálarinnar og mannlífsins. Og þó er eitthvert það jarðar-
megin í sögum hans sem jafnar þrýstinginn og gerir það að verkum að maður
fær ekki köfunarveiki þegar komið er upp á yfirborðið. Og „yfirborðið“ er
aldrei yfirborð í reynd, heldur einsog einhver neðansjávarhellir svo gríðar-
stór þar sem fólk lifir á grónum bökkunum í undarlega grænleitri birtu.
Sögumaðurinn mótar heiminn sem hann horfir á, og hann horflr innan úr
hjarta sínu. Þetta er sköpun í orðsins fyllstu merkingu. „Raunveruleikinn,"
sem við köllum svo, gengur gegnum ótal ummyndanir í sögunum og er
stundum nánast óþekkjanlegur, en þó ef til vill nær sínu sanna eðli en við
fáum séð í okkar daglega strefi gegnum þessa tilveru. Raunsæi er hugtak sem
hefur verið þrengt og rangtúlkað í nútímanum, einsog fleira. „Óendanleik-
inn þrengist nú um 11 hugtök á sólarhring,“ segir ísak Harðarson í ljóði. Og
Bruno hafði sjálfur svipaða afstöðu gagnvart sínum samtíma, hann spyrnti
við fótum þegar átti að uppræta allar „mýtur,“ sér í lagi þær sem búa „í
frumstæðu hamsleysi11 í hjörtum allra og gera lífið þess virði að lifa því —
gefa því vídd og frelsi. Þannig er Bruno Schulz ef til vill raunsæishöfundur
framar öðrum. Innra líf manna er staðreynd, þó off geri fólk sitt besta til að
afneita því nú orðið (og hefur sjálfsagt alltaf gert) og fullt eins „raunverulegt“
og ísskápurinn okkar! Á hans tíð hafði sálarfræði rutt sér varanlega til rúms
í Evrópu, og hann óttaðist afleiðingar þess að fara inn á svæði mannshugans
með þessa kortagerðarmenn andans, hann trúði því að maðurinn væri
aðeins heill með sínar villtu lendur ósnortnar, eða að minnsta kosti treysti
hann því ekki að þeir væru nógu umhverfissinnaðir til að hrófla ekki við
viðkvæmum lággróðri, og koma þannig af stað gróðureyðingu. (Þó hefur
einhver talað um áhrif Freuds á hann, en sú ályktun er býsna hæpin.) Sjálfur
var hann undirlagður af þunglyndi og löngum þurrkatímabilum þar sem
hann gat ekki skrifað, en hann sótti sér alltaf að lokum einhverskonar
næringu í hugarskuggana, einsog skáld hafa lengi gert, og er ekki „frumlegt“
nema í raunverulegum skilningi; það er í samræmi við það upprunalega í
sálarlífinu, og þannig þurfa hlutirnir að gerast eigi svonefnd sköpun að eiga
sér stað, a.m.k. hvað varðar persónuleika Schulz, og ekki er alveg fráleitt að
þetta megi heita algilt.
Rainer Maria Rilke var átrúnaðargoð Schulz, ásamt Thomasi Mann, og
þetta skýrir hugsanlega að nokkru sjaldgæfan samruna í verkum hans; hann
nálgast skriftirnar einsog ljóðskáld, en jafnframt stýrir örugg hönd sagna-
mannsins hverfulum penna ljóðskáldsins inn á svið frásögunnar.
Sögumaðurinn Jósef, og faðirinn Jakob — þessi nöfn minna að sjálfsögðu
98
TMM 1994:4