Náttúrufræðingurinn - 2012, Page 13
13
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags
Leifur A. Símonarson og Jón Eiríksson
Á milli hraunlaga í íslensku blágrýtismynduninni eru víða misþykk set-
lög úr leirsteini, siltsteini, sandsteini eða völubergi og eru þau vatna- eða
árset að uppruna. Hins vegar eru rauðleit, leirborin silt- og sandsteinslög
að mestu leyti mynduð úr fornum jarðvegi mun algengari. Efnaveðrun
hefur losað um járn í lögunum og litað þau rauð og víða eru forn gjósku-
lög í þeim. Í setlögunum hafa víða fundist leifar plantna sem lifðu hér á
landi á meðan blágrýtismyndunin hlóðst upp. Hér er reynt að rekja helstu
breytingar sem urðu á íslenskum plöntusamfélögum samtímis hægfara
kólnun á síðari hluta nýlífsaldar. Á Tjörnesi eru þrjár aðalsetlagasyrpur;
elst og syðst eru Tjörneslög, þá koma setlög í Furuvík og yngst eru set-
lögin í Breiðuvík. Í krókskeljalögunum, yngsta lífbelti Tjörneslaga, hafa
fundist allmargar tegundir sjávardýra sem virðast ættaðar úr Kyrrahafi;
því er talið að miklir sædýraflutningar hafi átt sér stað úr Kyrrahafi yfir í
Atlantshaf þegar þessi hluti Tjörneslaga myndaðist. Hefur það verið sett
í samband við lokun Panamasunds (Central American Seaway) fyrir um
3,6 milljónum ára, en þá breyttust yfirborðsstraumar í Norður-Kyrrahafi
þannig að mun sterkari straumur varð norður á bóginn í átt að Berings-
sundi og út úr sundinu, yfir í Íshafið og áfram í átt til Norður-Atlantshafs
og þá suður á bóginn. Talið er að Tjörnes hafi verið einn af fyrstu viðkomu-
stöðum þessara tegunda í Atlantshafi.
Jarðlög frá ísöld eru frábrugðin jarðlögum blágrýtismyndunarinnar að
því leyti að þau bera þess oftast merki að jöklar hafi haft áhrif á myndun
þeirra. Setlög frá ísöld eru af mismunandi uppruna, en talsvert hefur fund-
ist í þeim af leifum hryggleysingja, einkum í vatna- og sjávarseti.
Náttúrufræðingurinn 82 (1–4), bls. 13–25, 2012
Ritrýnd grein
Steingervingar og
setlög á Íslandi
Inngangur
Jarðsaga Íslands mótast af eldsum-
brotum, hraunrennsli og gjóskufalli.
Elstu jarðlög á landinu eru talin til
íslensku blágrýtismyndunarinnar
frá seinni hluta nýlífsaldar (tertíer-
tímabili) og hefur upphleðslu
hennar lokið fyrir um það bil 2,6
milljónum ára. Blágrýtismyndunin
nær aðallega yfir tvö svæði, ann-
ars vegar Vestur- og Norðurland
frá Hvalfirði til Bárðardals og hins
vegar Austurland frá Þistilfirði til
Skeiðarársands. Nú á tímum skilja
virk gosbelti þessar myndanir að,
en jarðlögunum hallar yfirleitt inn
að miðju landsins í átt að gosbelt-
unum. Því mun elsta berg á land-
inu vera á norðvestanverðum Vest-
fjörðum og austast á Austfjörðum.
Gera má ráð fyrir að enn eldra
berg sé varðveitt undir sjávarmáli.
Íslenska blágrýtið er talið myndað
eftir að rek og gosvirkni færðist frá
Ægishrygg og vestur á Kolbeins-
eyjarhrygg fyrir um 27 milljónum
ára.1 Blágrýtismyndunin íslenska er
að mestu úr hraunlögum, einkum
blágrýti, og hefur meginhlutinn
hlaðist upp í sprungugosum, sem
skilja sjaldan eftir sig vel varð-
veittar eldstöðvar. Aðfærsluæðar
þeirra eru hins vegar vel þekktar
sem gangar er skerast í gegnum
lögin. Dyngjur sjást hins vegar hér
og þar og eldkeilur og eldhryggir
hafa víða varðveist sem svonefndar
megineldstöðvar, en allmargar slíkar
fornar eldstöðvar hafa fundist í blá-
grýtismynduninni báðum megin við
gosbeltið.
Frumkortlagning og aldursgrein-
ingar á íslensku blágrýtismyndun-
inni hafa leitt í ljós að yfirleitt líða
fimm til tíu þúsund ár á milli þess að
hraun rennur á tilteknu myndunar-
svæði.2 Myndun einstakra hraun-
og gjóskulaga tekur því einungis
nokkur augnablik, þegar litið er
til þess langa tíma sem það tók að
byggja upp jarðlagastaflann. Í ljós
þess hvernig setlög myndast og
varðveitast á Íslandi í dag er ekki erf-
itt að sjá fyrir sér uppruna sets sem
varðveitt er í íslenska hraunlagastafl-
anum. Þetta skýrist af því að ríkjandi
myndunarferli eru þau sömu nú og
þá. Í fyrndinni, alveg eins og á okkar
dögum, hefur landslagið mótast af
höggun og eldvirkni á gosbeltum
en af rofi og setmyndun utan þeirra.
Öskufall á nokkurra ára fresti hefur
stuðlað að hraðri jarðvegsmyndun
og auðveldað gróðri að ná fótfestu.
Þessa sjást greinileg merki í víðáttu-
miklum, rauðum setlögum í hraun-
lagastaflanum, en í þeim er víða
töluvert af stöngul- og blaðförum
og koluðum plöntuleifum. Bendir
það til þess að einkum sé um fornan
jarðveg að ræða, en þessi fornu
jarðvegslög eru ekki einu setlögin
sem varðveist hafa. Meginhluta þess
tíma sem landið hefur verið að hlað-
ast upp ofan sjávarmáls hefur það
verið eyja í Norður-Atlantshafi og
veðurfar líklega tiltölulega rakt og
vindasamt, dæmigert eyjaloftslag.