Náttúrufræðingurinn - 2012, Blaðsíða 19
19
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags
Tjörnes – sjávarset frá plíósen
og ísöld
Á Tjörnesi eru þrjár meginsyrpur
setlaga; elst og syðst eru Tjörneslög,
þá koma Furuvíkurlög og yngst eru
Breiðuvíkurlög. Setsyrpur þessar
hafa sest til í stórri setlagadæld sem
myndaðist í norðurenda gosbeltis-
ins á Tjörnesi og undir Skjálfanda.
Í syrpunum skiptast á sjávarset,
vatnaset, árset, jökulberg og hraun-
lög. Sjávarsetlög mynduð áður en
ísöld gekk í garð eru óvíða þekkt
annars staðar á landinu. Í Mýrdal
hafa þó fundist sethnyðlingar með
sædýraleifum frá því fyrir ísöld og
eru þeir komnir úr setlögum undir
dalnum sem gosefni hafa rifið með
sér á leið til yfirborðs.25 Tjörneslögin,
elstu syrpuna á Tjörnesi, má rekja
um 6 km leið í sjávarbökkunum á
vestanverðu nesinu frá Köldukvísl
og norður til Höskuldsvíkur. Lög-
unum hallar allt að 10° í norðvestur;
þau eru víða sprungin svo að ekki er
auðvelt að segja nákvæmlega til um
heildarþykkt þeirra, en hún mun þó
varla minni en 500 m.4,26 Í sjávarseti
Tjörneslaga hafa fundist mismun-
andi samfélög sædýra og hvergi
hafa fundist fleiri tegundir sjávar-
dýra í íslenskum setlögum. Mest ber
á lindýrum, krabbadýrum og göt-
ungum.26,27,28,29 Einnig hafa fundist
þar leifar fiska og sjávarspendýra,
bæði sela, rostunga og hvala.
Tjörneslögum er skipt í þrjú líf-
belti (e. biozones) og hefur hvert belti
sína einkennisskel eða -skeljar.26
Neðst og elst eru gáruskeljalög, þá
koma tígulskeljalög og efst og yngst
eru krókskeljalög. Gáruskeljalög
eru kennd við gáruskeljar (Vene-
rupis=Tapes) og hafa fundist þrjár
tegundir gáruskelja í lögunum, en
ein þeirra lifir nú ekki norðar en í
Norðursjó. Miðbeltið, tígulskelja-
lögin, er kennt við tígulskeljategund,
Spisula (=Mactra) arcuata, sem nú er
útdauð. Í gáruskeljalögum og neðri
hluta tígulskeljalaga skiptast á sjávar-
set og kolalög (surtarbrandur) og er
mestur hluti sjávarsetsins myndaður
á grunnsævi, líklega í strandnánd.
Svæðið hefur því ýmist verið ofan
eða neðan sjávarmáls á myndunar-
tíma neðstu setlagasyrpnanna á Tjör-
nesi.26,28 Efri hluti tígulskeljalaga er
hins vegar nær alfarið myndaður
úr sjávarseti (7. mynd). Lindýrateg-
undir sem fundist hafa í gáru- og
tígulskeljalögum eru flestar þekktar
úr álíka gömlum og eldri jarðlögum
annars staðar við Norður-Atlants-
haf. Hins vegar lifa margar þeirra
nú eingöngu í hlýrri sjó en þeim
sem nú er hér við land. Súrefnissam-
sætur í sæskeljum geta sagt okkur til
um sjávarhitann sem dýrin lifðu við
og virðist sjávarhiti varla hafa verið
lægri en 15°C þegar efstu setlögin
í gáruskeljabeltinu mynduðust en
farið lækkandi, allt niður í 7–8°C efst
í tígulskeljalögum.29 Frjórannsóknir
sem gerðar hafa verið á kolalögum
í tígulskeljalögunum benda til mild-
ara loftslags en nú, þó að nokkrar
kulvísar tegundir sem eru þekktar
úr eldri lögum séu horfnar úr gróð-
urfélögunum.5 Meðalhiti kaldasta
mánaðar hefur líklega verið hærri
en 0°C, enda bendir tilvist krist-
þyrnis til þess.5
Allt frá miðri nítjándu öld hafa
Tjörneslögin verið talin plíósen að
aldri.30 Aldursgreiningar á hraunum
við botn gáruskeljalaganna31 og
nýlegar rannsóknir á svipuþör-
ungum í Tjörneslögunum benda til
þess að lögin hafi byrjað að hlaðast
upp fyrir um það bil 5 milljónum
ára.32
Krókskeljalögin eru kennd við
krókskel, Serripes (=Cardium) groen-
landicus; má rekja þau frá Hallbjarn-
arstaðaá norður til Höskuldsvíkur.
Lögin eru að mestu úr sjávarseti, en
efst í þeim eru frekar þunn kolalög.
Neðst í krókskeljalögum breytist
sædýrafánan mikið með tilkomu
tegunda sem áður voru óþekktar á
svæðinu. Má þar nefna beitukóng,
hafkóng, krókskel, hallloku og rata-
skel (Hiatella arctica, ekki H. rugosa),
en síðan hafa þessar tegundir verið
meðal algengustu skeldýrategunda
hér við land.33,28 Í krókskeljalög-
unum hafa fundist meira en 80 teg-
undir sælindýra, aðallega snigla- og
samlokutegundir; sumar þeirra eru
ekki þekktar úr eldri jarðlögum
við Atlantshaf og virðast ættaðar
úr Kyrrahafi, því að þar hafa þær
fundist í eldri jarðlögum. Virðist því
sem miklir sædýraflutingar hafi átt
sér stað úr Kyrrahafi yfir í Atlants-
haf um það leyti sem neðsti hluti
krókskeljalaga var að myndast.33,28
Þessir sædýraflutningar eru settir í
samband við lokun Panamasunds á
milli Kyrrahafs og Atlantshafs fyrir
um 3,6 milljónum ára, en þá breytt-
ust yfirborðsstraumar í Norður-
Kyrrahafi þannig að mun sterkari
7. mynd. Skeljalög í tígulskeljalögum á Tjörnesi. Einstök skeljalög hafa myndast við saman-
söfnun skelja og skeljabrota þegar straumar léku um botnsetið og skoluðu burtu setkornum,
en skeljarnar sátu eftir þar sem þær eru þyngri. Aldur setlaganna er 4–3,5 milljónir ára.
– Shell beds in the Mactra Zone of the Tjörnes beds, North Iceland. Concentrations of
molluscs represent lag deposits. The age is 4–3.5 Ma.