Náttúrufræðingurinn - 2012, Síða 87
87
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags
Sverrir A. Jónsson, Ólafur Eggertsson og Ólafur Ingólfsson
Skógarsaga Fljótsdals-
héraðs síðustu 2000 árin
Tilgangur þessarar rannsóknar var að afla gagna sem gætu gefið mynd af
gróðurfarssögu Fljótsdalshéraðs síðastliðin 2.000 ár og kanna orsakir fyrir
hnignun skóga héraðsins. Rannsóknin byggist á tveimur mismunandi
gagnasöfnum. Annars vegar var farið í gegnum sagnfræðilegar heimildir
um gróðurfar og veðráttu á Austurlandi frá landnámi til okkar daga. Hins
vegar var gerð frjórannsókn á sýnum úr setkjarna sem tekinn var úr tjörn
í Hallormsstaðarskógi. Sá kjarni spannar um það bil 2.000 ár.
Setið í kjarnanum var fremur einsleitt vatnaset en innihélt mörg ösku-
lög. Öskulagatímatal, byggt á sex þekktum öskulögum, var sett upp fyrir
kjarnann. Niðurstöðum frjórannsóknarinnar var skipt upp í fimm frjóbelti
þar sem hvert þeirra táknaði mismunandi gróðurfarsaðstæður. Frjóbeltin
voru síðan notuð til að túlka gróðurfarssögu svæðisins. Við landnám var
svæðið umhverfis tjörnina þakið skógi, en skógurinn hörfaði hratt eftir
landnám. Á 15. öld styrktist skógurinn á ný og hélt stöðu sinni allt fram
á miðja 18. öld en fór eftir það að hörfa hratt. Skóginum hnignaði allt til
upphafs 20. aldar, þegar hann var friðaður. Áhrif mannsins virðast hafa
skipt sköpum hvað varðar ástand skógarins eftir landnám.
Náttúrufræðingurinn 82 (1–4), bls. 87–97, 2012
Ritrýnd grein
Inngangur
Samkvæmt viðteknum hugmyndum
var Ísland þakið birkiskógi við land-
nám. Ýmsar frjórannsóknir styðja
þessar hugmyndir1,2,3,4 og benda
sumar þeirra til þess að skógur hafi
byrjað að hörfa hratt fljótlega eftir
landnám.2,3
Hallormsstaðarskógur er talinn
stærstur náttúrulegra skóga á Íslandi,
en ekki er ljóst hvort þar hafi vaxið
skógur óslitið frá landnámi eða
hvort hann hafi horfið alveg á ein-
hverjum tíma. Til að rannsaka sögu
skóga á Fljótsdalshéraði er mikil-
vægt að kanna skriflegar heimildir
um skóginn og notkun hans, breyt-
ingar á mannfjölda og veðurfar.
Samhliða þessu var gerð frjórann-
sókn á setkjarna sem tekinn var úr
lítilli tjörn í Hallormsstaðarskógi.
Veðurfar á Íslandi
Mikið er til af rituðum heimildum
um veðurfar á Íslandi á fyrri öldum
og hefur sagnfræðingurinn Astrid
Ogilvie farið í gegnum öll þessi
gögn og tekið saman yfirlit yfir
veðurfar frá landnámi og til þess
tíma að mælingar hófust fyrst á
Íslandi, í Stykkishólmi snemma á
19. öld (1. mynd).
Ekki er mikið til af gögnum um
veðurfar frá fyrstu öldum Íslands-
byggðar, en ef aðeins er byggt á
þeirri staðreynd að tveir bæir sem
voru í byggð á þeim tíma lentu síðar
undir jökli7, má leiða líkur að því að
veðurfarið hafi verið frekar milt við
landnám. Margar heimildir vitna
um versnandi veðurfar frá byrjun
13. aldar, og við lok 13. aldar virðist
loftslag hafa kólnað verulega. Á 14.
öld var veðurfarið misjafnt, frekar
milt framan af en sjöundi og áttundi
áratugur 14. aldar virðast hafa verið
kaldir. Árið 1364 er greint frá því að
hafís hafi aukist á siglingaleiðinni til
Grænlands. Ekki er mikið um heim-
ildir um veðurfar frá 15. öld, en þó
virðist sem það hafi almennt verið
frekar milt. Um miðja 16. öld var
veðurfar án efa kalt og mikill hafís
við strendur landsins og á siglinga-
leiðum.8
Veðurfar virðist hafa farið kóln-
andi undir lok 16. aldar og í byrjun
þeirrar 17. Seinni hluti 17. aldar
virðist aftur á móti hafa verið frekar
mildur fyrir utan tíunda áratug
aldarinnar, sem var mjög kaldur.
Fyrri hluti 18. aldar virðist hafa
verið mildur fram undir 1730, en þá
kólnaði mjög. Næstu þrír áratugir