Náttúrufræðingurinn - 2012, Síða 136
Náttúrufræðingurinn
136
tímabilið sem hófst fyrir um 2,6
milljónum ára, skiptast á jökulskeið
annars vegar og mun styttri hlý-
skeið hins vegar. Síðasta jökulskeiði
lauk með töluverðum hitasveiflum
sem hófust með snöggri hlýnun
fyrir um 14.500 árum. Í um 2.000 ár
var tiltölulega hlýtt, en þó ekki stöð-
ugt. Þessu hlýja tímabili, sem í raun
er skipt í tvennt, Bölling og Alleröd,
lauk skyndilega með mikilli og
snöggri kólnun. Því kalda tímabili,
sem nefnt hefur verið yngra drýas,
lauk skyndilega fyrir um 11.700
árum og markar þar með endalok
síðasta jökulskeiðs.
Snemma á sjöunda áratug 20. ald-
arinnar varð mönnum ljóst að gam-
all jökulís getur geymt margþættar
upplýsingar um veðurfar fyrri tíma.
Síðan hafa nokkrir ískjarnar verið
boraðir út bæði á Grænlandsjökli
og jökli Suðurskautslandsins, en úr
þessum tveimur meginjöklum hefur
helst verið talið hægt að ná heillegum
ískjörnum sem geti gefið nákvæmar
upplýsingar um veðurfar og tækifæri
til að rekja orsakir veðurfarsbreyt-
inga. Grænlandskjarnarnir geyma
upplýsingar að minnsta kosti 123.000
ár aftur í tímann,2 en úr suðurskauts-
jöklinum má lesa veðurfarssögu síð-
ustu 820.000 ára3.
Grænlandsjökull er ákjósanleg-
asti staðurinn á öllu norðurhveli
jarðar til rannsókna á veðurfari
og samsetningu andrúmsloftsins á
liðnum öldum, vegna þess að jök-
ullinn er gerður úr vel lagskiptri
frosinni úrkomu liðins tíma. Þá er
reiknað með því að hvert árlag í
póljöklum (hjarnjöklum) varðveiti
í sér efnasamsetningu úrkomu þess
tíma þegar snjórinn féll á jökulinn.
Þíðjöklar, en til þeirra teljast íslensku
jöklarnir, glata aftur á móti þessum
upplýsingum vegna sumarbráðn-
unar. Því er ekki unnt að nota þá á
sama hátt til að rekja upplýsingar
um úrkomu og þar með veðurfar
liðins tíma.
Hægt er að rannsaka ýmsa þætti
í hjarnjöklum, t.d. samsætur, en þær
gefa upplýsingar um hitastig fyrri
tíma,4–10 rykmagn, sem gefur upp-
lýsingar um storma og vindáttir,11,12
gasinnlyksur, sem veita upplýsingar
m.a. um efnasamsetningu andrúms-
loftsins og þar með um gróðurhúsa-
lofttegundir,13–16 sýrustig íssins og
öskulög í honum, sem veita upp-
lýsingar um eldvirkni á norður-
hveli jarðar,17,18 og efnasamsetningu,
en hún gefur upplýsingar um ýmis
ferli á landi, sjó og lofti.17,19,20 Saman
gefa þessir þættir nákvæma mynd
af umhverfi og veðurfari liðins tíma,
ekki bara á Grænlandi heldur á öllu
norðurhvelinu og reyndar um jörð-
ina alla.
Í þessari grein er fyrst og fremst
fjallað um samsætumælingar og þær
upplýsingar sem þær gefa um forn-
veðurfar jarðarinnar.
Boranir í Grænlandsjökul
Sumarið 1966 var fyrsti djúpi ís-
kjarninn boraður á Grænlandsjökli,
nánar tiltekið á stöðinni við Camp
Century á Norðvestur-Grænlandi,
ekki langt frá Thule (2. mynd). Ísinn
reyndist þarna vera 1.390 m þykkur
og elsti ís við botninn um 120.000
ára.21 Mælingarnar leiddu í ljós
veðurfarssveiflur sem í aðaldráttum
staðfestu vitneskju sem aflað hafði
verið með öðrum rannsóknum, t.d.
á sjávarseti. Til viðbótar gaf ískjarn-
inn til kynna snöggar veðurfars-
sveiflur á síðari hluta jökulskeiðsins.
Þeim niðurstöðum var þó almennt
tekið með tortryggni innan vísinda-
samfélagsins og ályktuðu margir
að mæliniðurstöðurnar orsökuðust
af staðbundnum truflunum á lag-
skiptingu jökulíssins.
Það var ekki fyrr en 13 árum síðar
sem borað var á ný í Grænlands-
jökul (1979–1981), og þá með nýjum
íslensk-dönskum bor, að veðurfars-
sveiflur Camp Century-kjarnans
voru staðfestar í Dye-3 kjarnanum
2. mynd. Staðsetning djúpkjarna á Grænlandi. – Locations of deep drilling sites in Greenland.