Náttúrufræðingurinn - 2012, Page 156
Náttúrufræðingurinn
156
er fyrst og fremst mannhverft, t.d.
vegna vísinda, fræðslu eða fegurðar.
Grunnmarkmið jarðminjaverndar
er að varðveita samstæður af ein-
kennandi fyrirbærum og ferlum alls
rófs náttúrulegra jarðminja.
Þróun á erlendum vettvangi
Á allra síðustu áratugum hefur
smám saman orðið vakning í
verndun hinnar dauðu náttúru. Ein-
stök jarðlög á Bretlandseyjum urðu
til þess að þar í landi var á 17. og 18.
öld lagður grunnur að jarðfræði sem
vísindagrein og sömu forsendur
liggja að baki frumkvæði Breta að
verndun jarðminja. Síðustu tvo ára-
tugina hafa Ástralir haft sig mjög í
frammi við mótun nýrra hugmynda
á þessu sviði, hugmynda sem farið
er að gæta í Bretlandi.
Bretland
Árið 1977 ýttu Bretar úr vör miklu
verkefni sem nefnist Geological Con-
servation Review. Markmið þess
var að skrásetja, skilgreina og lýsa
öllum merkustu svæðum og stöðum
á Bretlandi er geyma jarðminjar
sem teljast mikilvægar á lands- og
heimsvísu.14 Þessu safni jarðminja
var ætlað að endurspegla allt róf og
breytileika breskrar jarð- og land-
mótunarfræði. Grunnvinnu, sem
einkum fólst í vali á svæðum og
stöðum, var að mestu lokið 1990
en útgáfa sérfræðirita um niður-
stöðurnar hófst árið 1989. Árið
2011 voru komin út 41 bindi af 44,
allt að 700 síður hvert, í A4 broti.
Skráðir staðir og svæði mynda
síðan grundvöllinn fyrir jarðminja-
vernd í Bretlandi.
Í nýlegum skýrslum um jarð-
breytileika í Skotlandi12,15 er annars
vegar lagt mat á gildi og stöðu jarð-
breytileikans og hins vegar hugað
að samþættingu eða innleiðingu
jarðbreytileikans í stefnumótun
í skipulagsmálum og á öðrum
sviðum eftir því sem við á. Lagt er
til að lífbreytileiki (e. biodiversity) og
jarðbreytileiki verði felldir saman
í einn grunnþátt þegar kemur að
stefnumótun fyrir framtíðarskipu-
lag. Hér er á ferðinni frumvinna
sem vert er fylgjast með hvernig
þróast á næstu árum.
Ástralía
Í kjölfar umdeildra virkjunarfram-
kvæmda á Tasmaníu á síðustu ára-
tugum tuttugustu aldar hófst þar
mikil umræða um náttúruverndar-
mál. Í framhaldinu hófst víðtæk
endurskoðun grunnhugmynda um
verndun jarðminja.13 Á síðustu
árum hefur hugtakið jarðminjar (e.
geoheritage) verið endurskilgreint
og útvíkkað, m.a. til þess að ná
fram skýrri tengingu við lífríkið
og verndun þess. Jafnframt hefur
hugtakið jarðbreytileiki (e. geodiver-
sity) verið skilgreint og það hugsað
sem grundvallarhugtak í nýrri sýn
á jarðminjar.
Eldri hugmyndir, sem einkum
voru ættaðar frá Bretlandi, mið-
uðust við að jarðminjavernd næði
fyrst og fremst til jarðfræðilegra og
landmótunarfræðilegra fyrirbæra.
Ástralir hafa bætt inn jarðvegi og
þeim ferlum sem eru virk í nátt-
úrunni. Með því verður jarðminja-
verndin víðtækari og fær nánari
tengingu við lífríkið.
6. mynd. Einsleitt apalhraunið er mikilvægur þáttur jarðbreytileikans og vistfræðilegur
grundvöllur hraungambrans (Racomitrium lanuginosum) sem einkennir stór hrauna-
svæði í landinu. – The homogenous aa-lava is an important part of geodiversity and forms
an ecological basis for the wolly fringe-moss (Racomitrium lanuginosum) which is
characteristic for large lava fields in Iceland. Ljósm./Photo: Lovísa Ásbjörnsdóttir.