Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2010, Page 8
¹4C ALDURSGREININGAR OG NÁKVÆM TÍMASETNING FORNLEIFA 7
skammti er þessi aðferð mikið notuð og byggist t.d. trjáhringjatímatalið,
sem fjallað er um í kaf la 5, á mælingum með þessari aðferð. Yngri aðferðin,
sk. AMS aðferð (Accelerator Mass Spectrometer), byggist á massagreiningu,
en þá eru 14C samsæturnar aðgreindar frá hinum kolefnissamsætunum
12C og 13C með því að nýta sér mismunandi þyngd samsætnanna. Kostir
við þessa aðferð eru að mjög lítil sýni (1mg) þarf til mælinganna og
mælingartími er stuttur. Hins vegar er tækjakostur dýr. Báðar aðferðir
geta ákvarðað styrk 14C sýnis rétt og af nákvæmni, sé sýnastærð nægileg.
Á undanförnum árum hefur töluvert verið f jallað um áreiðanleika
14C aldursgreiningaraðferðarinnar. Sérstaklega hefur umræðan um
tímasetningu landnáms á Íslandi sett áreiðanleika aðferðarinnar og
nákvæmni í kastljósið. Hér er sett fram sú nálgun að eftirfarandi fjögur
meginskilyrði séu forsenda þess að 14C aldursgreiningar tímasetji fornleifar
af nákvæmni: Í fyrsta lagi þarf aldursgreiningarstofan að undirbúa sýnin
rétt og geta mælt styrk 14C í sýninu rétt og af mikilli nákvæmni (precision
and accuracy). Í öðru lagi verður sýnið að endurspegla þann atburð sem
því er ætlað að tímasetja, en oft þarf mikla kunnáttu og reynslu til að
tenging þarna á milli sé rétt. Í þriðja lagi þarf að gæta vel að öllum atriðum
sem leitt geta til að 14C styrkur sýnis endurspegli ekki raunaldur þess. Í
mörgum tilvikum er hægt að gera leiðréttingar þannig að raunaldur fáist.
Í fjórða lagi þarf atburðurinn sem tímasetja á að hafa átt sér stað á þeim
tíma þar sem leiðréttingarkúrfan er línuleg og brött (sjá frekari umfjöllun
í kaf la 5). Fyrsta atriðið er í höndum aldursgreiningarstofunnar, annað
atriðið í höndum þess sem tekur sýnið, þriðja atriðið er á ábyrgð þess sem
túlkar aldursgreininguna og það fjórða fer eftir 14C styrk andrúmsloftsins á
liðnum árum og öldum og verður ekki við ráðið. Hér á eftir verður hvert
þessara atriða skoðað nánar.
2. Aldursgreiningarstofur
Um 130 14C aldursgreiningarstofur eru starfræktar í heiminum, þar
af fimm á Norðurlöndunum. Þær hafa með sér samvinnu um stöðlun
stofanna þannig að á nokkurra ára fresti hefur rannsóknarstofan í Glasgow
sent út samskonar sýni til þeirra allra til að aldursgreina án þess að þær viti
aldur sýnanna. Í síðustu könnun tóku níutíu og tvær stofur þátt (Scott EM,
2003 a, b). Rannsóknarstofan í Árósum, en við hana hef ég haft samvinnu
frá 1987, hefur reglulega tekið þátt í þessum samanburðarmælingum og
alltaf komið mjög vel út.