Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2010, Side 49
48 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
[1996] og heimildir þar í). Þessar rannsóknir hafa sýnt, svo ekki verður
um villst, að hratt undanhald skóganna á fyrstu 100-200 árum í kjölfar
landnáms er umfangsmesta og snarpasta breyting á gróðurfari sem orðið
hefur á Íslandi á nútíma. Þeirri mynd sem Margrét Hallsdóttir (1987) dró
upp af ferli gróðurbreytinga um landnám hefur ekki enn verið haggað.
Jafnvægi í gróðurfari sem hér ríkti fyrir tíma landnáms var raskað með
tilkomu landbúnaðar. Skóglendi, og vistkerfinu sem í því hafði þróast, var
að stórum hluta eytt og í kjölfarið kom til nýr stöðugleiki (þ.e.a.s. með
tilliti til gróðurfars) á hinu raskaða landi en í gjörbreyttu umhverfi þar
sem lágvaxnar, harðgerar og beitarþolnar gróðurtegundir urðu ríkjandi.
Í dag eru þessi svæði til dæmis skilgreind sem tún, graslendi, valllendi
og mólendi, sem eru meira eða minna manngerð vistkerfi (Þóra Ellen
Þórhallsdóttir 1996). Þó svo að þetta ferli sé ekki endilega bundið við
ákveðinn tíma benda frjókornarannsóknir til að það eigi við hvar sem
skóglendi var eytt. Sannarlega eyddust skógarnir fyrst nærri byggð, eins
og frjókornarannsóknir hafa sýnt, til dæmis við Reykholt, Stóru-Mörk og
víðar. Hinn byggði hluti Íslands er líka mjög stór hluti undirlendis þess,
þar sem birkiskógarnir áttu sitt kjörlendi, og því líklegt að stórum hluta
skóganna hafi í raun verið eytt á tiltölulega stuttu tímabili eftir landnám.
Það er þó enn óljóst hversu langt frá bæjum þessara áhrifa kann að hafa
gætt og ef til vill er það breytilegt. Breiðavatn er til dæmis í aðeins um
tveggja km fjarlægð frá Reykholti og enn nær bæjunum Úlfsstöðum (1,3
km) og Breiðabólstað (1,5 km). Samt sem áður þreifst þar skóglendi þar til
því virðist hafa verið eytt milli 1150-1300. Svipað á við um Helluvaðstjörn
í Mývatnssveit þar sem birki virðist hafa þrifist nærri byggð (1,8-2,5 km
í næstu bæi) þar til það byrjaði að eyðast um 1050 og var að mestu horfið
frá vatninu um 1300 (Lawson o.f l. 2007).
Orri Vésteinsson og Simpson (2004) hafa leitt að því líkur að reynt hafi
verið að vernda það skóglendi sem eftir var um árið 1000 og nýta það með
sem sjálfbærustum hætti á mið- og síðmiðöldum, það er að segja frá því að
mesta skógareyðingin var yfirstaðin og hugsanlega fram yfir 1500. Í sama
streng taka McGovern o.f l. (2007) og benda í því sambandi á varfærnar
aðferðir við skógnytjar og kolagerð, til dæmis að höggva greinar trjáa til
kolagerðar fremur en stofna þeirra. Þá hafa Egill Erlendsson o.f l. (óbirt
grein) bent á að tilvist skóga fram til 1150-1300 við Breiðavatn kunni að
hafa stafað af skipulegri nýtingu skóglendis. Þetta má þó túlka á annan
hátt. Fall birkifrjókornanna við Breiðavatn og Helluvaðstjörn virðist ekki
einungis falla beint inn í hið meinta tímabil hóf legrar nýtingar heldur
virðist skóglendið hafa hörfað fremur hratt og horfið úr nágrenni vatnanna